Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vanskil hafa viðamiklar afleiðingar

Mynd með færslu
 Mynd:
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR vill að ríkisstjórnin leggi áherslu á stuðningsaðgerðir fyrir heimilin og fólk sem lendi í vanda með að standa við skuldbindingar sínar. Aðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins hafi ekki beinst nægilega að almenningi og heimilum í landinu.

Mikilvægt sé að afkoma þeirra verði tryggð í kórónuveirufaraldrinum og eftir hann. Ragnar segist óttast að það sama gerist og eftir efnahagshrunið 2008 þegar heimilin í landinu voru varnarlaus gagnvart hörðum innheimtuaðgerðum fjármálastofnana.

Jafnframt segir Ragnar að hætt sé við að viðspyrna í samfélaginu verði ekki nógu traust, þegar bóluefni kemur, verði fólk með allar skuldbindingar sínar í vanskilum.

600 milljóna skatttekjur umfram kostnað við björgunaraðgerðir

Mat Ragnars er að ríkisstjórnin sé við að falla á tíma með að skapa betri aðgerðapakka til stuðnings við heimilin en verið hefur. Beinn stuðningur til almennings nemi um sjö milljörðum króna og þrjú hundruð milljarðar til fyrirtækja í landinu.

Þetta segir Ragnar að byggi á þeim tölum sem stjórnvöld hafi birt um nýtingu úrræðanna. Hann segir fólk hafa gengið á eigin sparnað með því að taka út 21 milljarð af séreignarsparnaði sínum. 

Hann sé staðgreiðsluskyldur og því hafi stjórnvöld haft 600 milljón króna skatttekjur umfram þær björgunaraðgerðir sem runnið hafi til heimila í landinu.

Ragnar segist neita að trúa því að ríkisstjórnin ætli enn og aftur að skilja heimilin og fólkið eftir, „sem mun enda með skelfilegum afleiðingum þegar fólk þarf að velja milli þess að kaupa í matinn eða borga reikninga.“

Vanskil skapa vítahring

Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar deilir áhyggjum Ragnars og bendir á að geti fólk ekki greitt reikninga skapist vítahringur sem geti haft afleiðingar síðar á ævinni.

Það segir Viðar kostnaðarsamt fyrir einstaklingana sjálfa og samfélagið allt. Hann hefur sömuleiðis þungar áhyggjur af hvernig opinberum stuðningi er útdeilt. Gæta þurfi að því að auka ekki á ójöfnuð með aðgerðum ríkisstjórnarinnar.

Hann segir að hafa þurfi í huga hversu misskiptar afleiðingar kreppunnar séu með tilliti til stéttarstöðu og atvinnustöðu. „Það á að vera forgangsmál að stuðningurinn skili sér til þeirra sem höllustum fæti standa og eiga erfiðast með að aðlaga sig að þessu ástandi,“ segir Viðar.

Það sé oftast fólkið á lægstu laununum. Hann segir að brýnt sé að hækka atvinnuleysisbætur, fjölga félagslegum úrræðum og koma á atvinnustefnu þar sem sköpuð verði boðleg sæmilega launuð störf fyrir atvinnulaust láglaunafólk.

Viðar bendir á víða sé mönnunarvandi, til dæmis í umönnunarstörfum. Hann segir þungt hljóð í atvinnulausu fólki, það sé erfið staða að vera í. Hann segir að því tekjulægra sem fólk sé megi það síður við öllum uppákomum.