Yfirskrift hátíðarinnar í ár er Þræðir og hverfist þemað um hugleiðingar um tímann með sérstöku tilliti til 90 ára afmælis RÚV og 250 ára fæðingarafmælis Beethovens. Anna Þorvaldsdóttir, eitt fremsta tónskáld landsins, var fengin til að stýra hátíðinni. Hún pantaði fjögur verk sem tónlistarhópurinn Elektra flytur í beinni útsendingu frá Hörpu á Rás 1 og í mynd á RÚV 2 og RÚV.is í kvöld kl. 18.30.
„Ég var að beðin um að taka þetta hlutverk að mér og fannst það mjög spennandi. Það er náttúrulega mjög sérstakt og spennandi að geta pantað ný tónverk, sérstaklega á þessu ári þar sem hlutirnir hafa nú ekki kannski verið beint eðlilegir. Þess vegna fannst mér mjög áhugavert líka að fá tónskáld sem eru mjög ólík og koma úr ólíkum áttum úr íslensku tónlistarlífi. Þar með langaði mig að finna þráðinn í gegnum íslenska tónlist. Öll tónskáldin vinna síðan á sinn hátt með þetta þema sem er mjög spennandi og ólíkar leiðir sem þau eru að fara.“