Tónlistarmenn úr ólíkum áttum á tónlistarhátíð Rásar 1

Mynd: - / RÚV

Tónlistarmenn úr ólíkum áttum á tónlistarhátíð Rásar 1

25.11.2020 - 10:31

Höfundar

Tónlistarhátíð Rásar 1 verður haldin í fjórða sinn í kvöld. Anna Þorvaldsdóttir tónskáld er listrænn stjórnandi en fjögur verk eftir jafnmörg tónskáld voru pöntuð sérstaklega fyrir hátíðina.

Yfirskrift hátíðarinnar í ár er Þræðir og hverfist þemað um hugleiðingar um tímann með sérstöku tilliti til 90 ára afmælis RÚV og 250 ára fæðingarafmælis Beethovens. Anna Þorvaldsdóttir, eitt fremsta tónskáld landsins, var fengin til að stýra hátíðinni. Hún pantaði fjögur verk sem tónlistarhópurinn Elektra flytur í beinni útsendingu frá Hörpu á Rás 1 og í mynd á RÚV 2 og RÚV.is í kvöld kl. 18.30. 

„Ég var að beðin um að taka þetta hlutverk að mér og fannst það mjög spennandi. Það er náttúrulega mjög sérstakt og spennandi að geta pantað ný tónverk, sérstaklega á þessu ári þar sem hlutirnir hafa nú ekki kannski verið beint eðlilegir. Þess vegna fannst mér mjög áhugavert líka að fá tónskáld sem eru mjög ólík og koma úr ólíkum áttum úr íslensku tónlistarlífi. Þar með langaði mig að finna þráðinn í gegnum íslenska tónlist. Öll tónskáldin vinna síðan á sinn hátt með þetta þema sem er mjög spennandi og ólíkar leiðir sem þau eru að fara.“

Tónskáld.
 Mynd: - - RÚV
Anna Þorvaldsdóttir, listrænn stjórnandi hátíðarinnar.

Tónskáldin sem Anna ákvað að fá til liðs við sig eru þau Högni Egilsson, Sóley Stefánsdóttir, Veronique Vaka og Haukur Þór Harðarson. Önnu fannst mikilvægt að búa til samtal á milli geira og leitaði því líka til tónlistarmanna með bakgrunn í poppi. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Högni Egilsson, Sóley Stefánsdóttir, Anna Þorvaldsdóttir, Veronique Vaka og Haukur Þór Harðarson.

„Það er einmitt mjög spennandi að prófa að fá tónskáld sem hafa einmitt ekki, sérstaklega kannski Sóley, hsvo mikið skrifað fyrir svona samspil. Mér fannst það svo áhugavert. Meðan einhver eins og Haukur Þór kemur alveg beint úr akademíska umhverfinu. Það er mjög áhugavert að fá þetta samtal, þessa vinnu milli geira. Þau eru oft ekki eins ólík og fólk heldur.“

Í verki Sóleyjar Stefánsdóttur stígur píanóleikari inn í hlutverk vitavarðar sem fær kvikasilfurseitrun, með tilheyrandi ranghugmyndum og ofskynjunum. „Það er ákveðin lúppa í gangi, hljómagangur í píanóinu. Þetta er svona smá Groundhog Day, að það er verið að éta hann, sem sagt,“ segir Sóley. „Ég ákvað að nýta tímann þannig að þú ert alltaf að upplifa einhverja hræðilega minningu. Kvartettinn [er] sem sagt vitaljósið, við erum svona að tæla hann til okkar. Þannig að þetta endar allt svolítið illa fyrir píanóleikarann, því miður.“

Tónleikarnir eru sem fyrr segir í beinni útsendingu í kvöld, miðvikudaginn 25. nóvember, kl. 18.30 á Rás 1 og í mynd á RÚV 2 og RÚV.is.