Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Smitaðist af eiginkonunni – óvíst hvar hún smitaðist

25.11.2020 - 17:01
Mynd: RÚV / RÚV
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir að það hafi verið óskemmtilegt að fá þær fréttir að hann sé smitaður af Covid-19. Hann sé einkennalaus og nokkuð brattur þrátt fyrir allt. Eiginkona hans smitaði hann af veirunni, en smit hans hefur ekki áhrif á starfsemi almannavarna.

Víðir greindist jákvæður í sýnatöku í dag en hann hefur verið í sóttkví síðan á mánudaginn. Ekki er vitað hvaðan eiginkona Víðis smitaðist.

„Við vitum ekki ennþá hvaðan við fengum þetta. Það hefur talsverð smitrakning farið fram seinustu daga og búið að skima talsverðan hóp af fólki í kringum okkur, og vel út fyrir það. Það hafa ekki margir þurft að fara í sóttkví í kringum okkur. Það hefur ekki fundist neinn í kringum okkur þannig að þetta er eitt af þessum tilviljanakenndu smitum,“ segir Víðir.

Hann segir að sex manns hafi þurft að fara í sóttkví í tengslum við smit hans, enginn þeirra er starfsmaður almannavarna. Víðir segist ekki hafa farið óvarlega í smitvörnum.

„Við höfum verið að passa okkur einstaklega vel lengi. Umgangast frekar lítið af fólki. Ég hef ekki farið í verslun, ég hef ekki farið neitt út fyrir,  fer bara í vinnuna og heim. Maður er endalaust að þvo sér um hendur og spritta sig. Eins og við höfum sagt, þessi veira er lævísk og lúmsk ogmeð mörg andlit.Nú er ég að kenna á einhverju af þessum andlitum sem maður veit ekki hvaðan kemur,“ segir Víðir. 

Hann segir að raðgreining leiði vonandi í ljós með nákvæmari hætti hvaðan smitið er upprunnið. Börn þeirra hjóna séu í sóttkví en ekki smituð.