Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Ríkisstjórnin afgreiddi níu náðunartillögur í gær

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Níu náðunartillögur voru afgreiddar á ríkisstjórnarfundi í gær og fóru svo til forsetans til undirritunar. Náðunartillögurnar voru lagðar fram samkvæmt tillögu starfshóps dómsmálaráðherra til aðgerða sem stytta eiga boðunarlista til afplánunar refsinga.

Ein af þeim sjö tillögum sem starfshópurinn lagði fram í skýrslu í júní síðastliðnum var að veita þeim sem væru búnir að vera lengur en þrjú ár á boðunarlista, hafa verið dæmdir fyrir minni háttar brot og eiga ekki ólokin mál í refsivörslukerfinu, skilorðsbundna náðun. Með því mætti fækka töluvert á boðunarlistanum, líkt og hafi verið gert í Danmörku árið 2005. 

Í skýrslunni segir að löng bið eftir afplánun í fangelsi sé í raun viðbótarrefsing sem geti haft neikvæð áhrif á dómþola. 116 dómþolar hafi verið á boðunarlista í þrjú ár eða lengur. Í stjórnarskránni komi fram að forseti Íslands náði menn og veiti almenna uppgjöf saka. Samkvæmt 1. málsgrein 13. greinar laga um fullnustu refsinga skuli dómsmálaráðherra skipa þriggja manna náðunarnefnd, til þriggja ára í senn og að allar náðunarbeiðnir skulu sendar nefndinni. Nefndin láti svo ráðherra í té rökstudda tillögu um afgreiðslu á náðunarbeiðnum.  

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV