Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Landsnet hækkar gjaldskrá, Landsvirkjun semur um lækkun

25.11.2020 - 05:23
Mynd með færslu
 Mynd:
Landsnet hefur tilkynnt stórnotendum í hópi viðskiptavina sinna að þeir eigi von á 5,5 prósenta hækkun gjaldskrár frá og með 1. janúar á næsta ári. Á sama tíma berast fregnir af því að Rio Tinto sé að ná fram verulegri lækkun á rafmagnsverði í samningum sínum við Landsvirkjun.

Greint er frá boðaðri hækkun Landsnets í Markaðnum, viðskiptakálfi Fréttablaðsins, en Landsnet er nánast einrátt á sviði raforkudreifingar á landinu.

Óskiljanleg hækkun og afleit tímasetning

Haft er eftir Sigurði Hannessyni, formanni Samtaka iðnaðarins, að hækkunin sé óskiljanleg og tímasetning hennar með ólíkindum. Hún leggist „á öll heimili og fyrirtæki landsins, langt umfram almenna hækkun verðlags á Íslandi." Arðsemi Landsnets sé „langt umfram það sem ætla má hjá fyrirtæki mep lögbundnum tekjumörkum", segir Sigurður, sýnt hafi verið fram á að flutingskostnaður raforku hér á landi sé allt of hár. Þar að auki hafi iðnaðarráðherra nýlega óskað eftir úttekt á fyrirkomulagi raforkuflutnings, með tilliti til kostnaðar notenda.

Forstjóri stærsta eiganda Landsnets líka hissa

Hörður Árnason, forstjóri Landsvirkjunar, er líka undrandi á boðaðri hækkun og segir hana sýna að úrbóta sé þörf á regluverkinu í kringum Landsnet. Það skjóti skökku við að Landsnet hækki verðið á flutningi rafmagns á sama tíma og Landsvirkjun reyni að standa með viðskiptavinum sínum á erfiðum tímum „með auknum sveigjanleika og tímabundnum verðlækkunum."

Segja líkur á 30 prósenta verðlækkun til Rio Tinto

Í Morgunblaðinu kemur fram að Landsvirkjun, stærsti einstaki eigandinn að Landsneti, eigi í samningaviðræðum um raforkuverð við Rio Tinto. Hefur blaðið heimildir fyrir því að raforkuverð til fyrirtækisins kunni að lækka um allt að 30 prósent. 

Eigendur Landsnets eru Landsvirkjun, RARIK, Orkubú Vestfjarða og Orkuveita Reykjavíkur, en ríkisstjórnin ákvað seint á síðasta ári að taka upp viðræður við þá um möguleg kaup á fyrirtækinu. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV