Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ísland verði í fararbroddi í orkuskiptum í flugi

25.11.2020 - 07:44
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis hefur lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að settur verði á fót starfshópur til að móta stefnu og aðgerðaáætlun um orkuskipti í flugi á Íslandi. Stefnt verði að því að byrja að nota umhverfisvæna orkugjafa í innanlandsflugi fyrir árið 2030.

Nefndin leggur til að starfshópur sérfræðinga undir stjórn samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í samráði við ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra, skoði hvernig Ísland geti skipað sér í fremstu röð í orkuskiptum í flugi, hvernig megi styðja við nýsköpun á því sviði og hvaða innviðir þurfa að vera til staðar. Hópurinn skili tillögum eigi síðar en 1. nóvember á næsta ári. 

Umhverfisvænir orkugjafar í innanlandsflugi fyrir 2030

Nefndin leggur til að sett verði fram markmið um að byrjað verði að nota umhverfisvæna orkugjafa í innanlandsflugi fyrir árið 2030. „Stefna ber að því að Ísland verði meðal fyrstu landa þar sem meiri hluti flugvéla í innanlands- og kennsluflugi er knúinn rafvélum að meginhluta og tvinnvélum meðan þeirra nýtur við. Í því samhengi er nauðsynlegt að skoðaðar verði svipaðar ívilnanir og gilda um umhverfisvæn ökutæki,“ segir í tillögunni.

Í greinargerð með tillögunni segir að hröð þróun nýrra aflvéla fyrir ýmsar gerðir flugvéla veki bæði athygli og vonir um stórfelldar framfarir í notkun vistvænna orkugjafa í innanlands- og millilandaflugi. Ætla megi að rafmagnsflugvélar verði komnar á markað árið 2022 og því sé raunhæft að áætla og hvetja til þess að þróun í átt að notkun umhverfisvænna orkugjafa í innanlandsflugi verði hafin árið 2030, þannig að mögulegt verði að knýja allan flugflotann, sem starfræktur verður í innanlandsflugi á komandi árum, umhverfisvænum orkugjöfum. Búast megi við að samhliða þeirri þróun líti dagsins ljós vetnisknúnar flugvélar sem henti á meðallöngum og löngum flugleiðum. 

Vísað er til þess að í flugstefnu fyrir Ísland frá árinu 2019 segi að eitt af lykilviðfangsefnunum sé að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum flugs og flugtengds rekstrar með því að stuðla að orkuskiptum á sviði flugsamgangna samfara tækniþróun og nauðsynlegra innviða vegna þeirra.

Þá segir að orkuskipti í flugvélaflota geti haft í för með sér allt að 80 prósenta lægri rekstrarkostnað og að hljóðmengun geti heyrt sögunni til, enda verði vélarnar nánast hljóðlausar á flugi. 

Ísland verði áfangastaður fyrir prófanir

Í tillögunni er fjallað um mikilvægi þess að stjórnvöld hvetji til samtals milli framleiðenda og flugrekenda með það að markmiði að Ísland verði notað til prófana á þessari nýju tækni. „Með því að gera landið að áfangastað við prófanir á flugvélum sem knúnar eru umhverfisvænum orkugjöfum fengist hingað dýrmæt reynsla og tækniþekking. Lagt er til að kannað verði hvernig styðja megi við nýsköpun á sviði orkuskipta í flugi enda full ástæða til að Íslandi leggi sitt af mörkum til tæknilegrar framþróunar samhliða prófunum véla frá erlendum framleiðendum,“ segir þar.