Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hvítvínskonan stýrir fjöldasöng á netinu úr eldhúsinu

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
„Um daginn sögn 20 manna hópur öll saman Í síðasta skipti með Frikka Dór í gegnum netið. Og ég sem Hvítvínskonan. Þetta var mjög súrt móment og krakkarnir inni í hinu herberginu að leika,“ segir Hjálmar Örn Jóhannsson, skemmtikraftur og Hvítvínskonan. Hann hefur haft nóg að gera í faraldrinum og sendir út sínar skemmtanir heiman frá sér. Sumir skemmtikraftar nýta sér streymi og aðrir fara með skemmtun til fólks.

Þegar fólk má ekki fara í leikhús kemur leikhúsið til þeirra, í dag var það á hjúkrunarheimilinu Eir. 

 

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV

„Við keyrum milli dvalarheimila aldraðra aðallega því það er mikið af því fólki sem fær ekki að fara neitt og er lokað inni bara,“ segir Örn Árnason, leikari í Þjóðleikhúsinu.

Sigríður Eyrún Friðriksdóttir, leikari í Þjóðleikhúsinu, fagnar því að fá að fara og skemmta eldra fólki. „Þetta er ómetanlegt. Bæði er fólk í einangrun sem fær ekki að fara út og hitta ástvini og fara í leikhús og á tónleika og líka við að fá að skemmta öðrum.“

Aðrir skemmtikraftar senda sínar skemmtanir út heiman frá sér, eins og Hjálmar Örn Jóhannsson sem bregður sér oft í gervi Hvítvínskonunnar. 

 

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV

„Hún er að detta inn á fundi oft til brjóta upp einhverjar skemmtanir og annað þá kemur Hvítvínskonan óvæntur gestur inn. Það hefur virkað mjög vel. Þá er hún að láta fólk jafnvel syngja. Um daginn söng 20 manna hópur öll saman Í síðasta skipti með Frikka Dór í gegnum netið. Og ég sem Hvítvínskonan. Þetta var mjög súrt móment og krakkarnir inni í hinu herberginu að leika. Þetta var allt mjög skrítið en þetta var geggjað. Þetta er mín vinna í dag. Ég bjóst ekki við þessu að ég myndi standa hérna 47 ára gamall og tala um fjarskemmtanir sem Hvítvínskonan,“ segir Hjálmar.

En sumar fjarskemmtanir eru stærri í sniðum, eins og jólatónleikar. þar sem fólk kaupir sér aðgang að beinu streymi. Þannig eru Jólagestir Björgvins í ár.

 

 

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV

„Þetta verða glæsilegir tónleikar, við ætlum að tjalda öllu til, gera eitthvað ofboðslegt fallegt og glæsilegt fyrir fólk heima í stofu,“ segir Svala Björgvins. Söngvararnir klæða sig upp í sitt fínasta púss en fólk getur setið heima í stofu á náttfötunum og notið tónleikanna í beinu streymi.