Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hvetur atvinnurekendur til að gefa fólki tækifæri

25.11.2020 - 11:59
Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar segir að mikil tækifæri séu til staðar fyrir atvinnurekendur að ráða til sín fólk í atvinnuleit hjá Vinnumálastofnun. Það gefi fólki sjálfstraust og kraft að verða virkt á atvinnumarkaði.

Þetta kom fram í máli Unnar á upplýsingafundi almannavarna í dag. hún hvatti  atvinnurekendur til að ráða til sín starfsfólk í gegnum úrræði Vinnumálastofnunar sem nefnist „Starf með styrk“ þar sem atvinnurekendur fá grunnatvinunleysisbætur greiddar auk lífeyrissjóðsframlags til að ráða til sín fólk í atvinnuleit til allt að sex mánaða. Framlag Vinnumálastofnunar er upp í launakostnað viðkomandi.

„Ég hvet atvinnurekendur til að skoða þetta vegna þess að með þessu móti geta þeir fengið afbragðs starfsfólk tímabundið inn, veitt starfsfólkinu tækifæri til að afla sér nýrra meðmæla, til að sanna sig, kannski fólk sem er búið að vera lengi í atvinnuleit. Þetta er beggja hagur. Það er svo dýrmætt fyrr atvinnuleitandann að komast inn á alvöru vinnustað, sýna að hann hefur engu gleymt, getur vaknað á morgnanna, er samviskusamur og sami góði starfskrafturinn og hann hefur alltaf verið og það hlýtur að vera dýrmætt fyrir atvinurekandur að geta fengið inn starfsfólk, það eru verkefni sem eru óleyst. það árar illa hjá mörgum fyrirtækjum. Þarna eru tækifæri fyrir alla. “ segir Unnur.

Hún segir að afgreiðslutími atvinnuleysisbóta sé nú orðinn styttri og eigi ekki að vera lengri en fjórar til sex vikur. Því eigi að vera hægt að komast hjá því að fólk verði fyrir greiðslufalli vegna þess.Þá hvetur hún  þá sem eru í atvinnuleit að leita sér menntunar og til þess að huga að eigin virkni. Aukið svigrúm sé til að afla sér menntunar án þess að skerða bætur og aðgengi fólks til náms og virkni hafi verið sett í forgang.

Regína Ásvaldsdóttir sviðstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar segir að áhrif faraldursins hafi haft mikil áhrif á jaðarsetta hópa. Tilfærslur starfsfólks af öðrum sviðum borgarinnar hafi reynst ómetanlegt fyrir velferðarsviðið. Fjármagn sé tryggt til vors fyrir athvarf fyrir heimilislausar konur. Verkefnið var samstarfsverkefni borgarinnar og félagsmálaráðuneytisins. 

„Við höfum verið að bjóða konum sem hafa verið í þessu úrræði fasta búsetu og munum halda því áfram fram eftir vonumst til að geta aðstoðað þær sem best þannig.“ segir Regína.

Stefnt sé að því að hafa eitt neyðarskýli fyrir karla annars vegar og hins vegar neyðarathvarf fyrir konur opið í vetur. Hún segir að afleiðingar faraldursins birtist meðal annars í fleiri málum á borði barnaverndar. Á landsvísu hefur barnaverndarmálum fjölgað um fjórtán prósent á árinu. Sú fjölgun hefur verið svipuð í Reykjavík.  

Upplýsingafundinn má sjá í heild sinni hér að neðan.

Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir