
Hvassviðri, hálka og ekkert ferðaveður
Klukkan fimm síðdegis tekur gildi gul viðvörun á Vestfjörðum, Breiðafirði og Faxaflóa og verður í gildi fram til morguns. Veðurstofan spáir suðaustan 15-23 m/s með snjókomu eða slyddu, einkum á fjallvegum á Snæfellsnesi þar sem færð getur spillst snögglega. Akstursskilyrði geta orðið varasöm.
Hvasst og vond akstursskilyrði
Klukkan sjö bætist svo við gul viðvörun á Suðurlandi þar sem einnig er spáð 15-23 m/s. Búast má við slyddu eða snjókomu á Hellisheiði, í Þrengslum og í uppsveitum, en rigningu við ströndina.
Um það leyti tekur einnig gildi gul viðvörun á höfuðborgarsvæðinu. Suðaustan 13-23 m/s og hvassast á Kjalarnesi. Snjókoma eða slydda og síðar talsverð rigning. Búast má við versnandi færð á götum, einkum í efri byggðum.
Veðrið róast í nótt en gular viðvaranir taka svo aftur gildi á hádegi á fimmtudag á Ströndum og Norðurlandi vestra, á Vestfjörðum, Breiðafirði, Faxaflóa og Suðurlandi og verða í gildi til miðnættis á fimmtudag. Veðurstofan varar við miklu hvassviðri, hálku á götum og gangstéttum og takmörkuðu skyggni á köflum, sem getur valdið vandræðum í umferðinni.
Ekkert ferðaveður á miðhálendinu
Appelsínugul viðvörun tekur gildi klukkan átta í kvöld á Ströndum og Norðurlandi vestra. Búast má við sunnan 18-28 m/s og snjókomu eða slyddu, einkum á Ströndum og á Holtavörðuheiði og Laxárdalsheiði. Versnandi akstursskilyrði og ekkert ferðaveður á miðhálendinu.
Færð versnar fljótt á fjallvegum
„Þetta er bara dæmigert vetrarveður sem í vændum er. Það eru öflug skil sem ganga yfir landið í nótt með vaxandi suðaustan og sunnanátt núna strax seinni partinn í dag. Það byrjar með snjókomu og slyddu og fer síðan yfir í talsverða rigningu þannig að það má búast við að færð versni fljótt á fjallvegum,“ segir Helga Ívarsdóttir veðurfræðingur í samtali við fréttastofu.