Hlusta á níð um móður sína og börn frekar en liðið sitt

Mynd: Hulda Geirsdóttir / RÚV

Hlusta á níð um móður sína og börn frekar en liðið sitt

25.11.2020 - 13:52

Höfundar

Nýverið kom út ástarsagan Í faðmi ljónsins eftir Orra Pál Ormarsson. Bókin er ekki hefðbundin ástarsaga en engu síður lýsir hún mikilli ástríðu, sorg og sigrum. Þetta er nefnilega saga af ást höfundar, og í raun þjóðarinnar, á enska boltanum.

„Það er eitthvað svo ómætstæðilega heillandi við ensku knattspyrnuna. Það eru einhverjir töfrar þarna,” segir Orri Páll. Áhugi Orra Páls á enska boltanum hófst snemma. „Þetta byrjar bara á gærunni fyrir framan svarthvítt sjónvarpið. Ég er af þeirri kynslóð þar sem voru sauðgærur fyrir framan öll sjónvörp. Þar sé ég þessa kappa hlaupa á skjánum og fell í stafi strax, og hef í raun verið stjarfur síðan,” segir Orri Páll. Hann viðurkennir einnig að hafa verið frekar virkt barn og mamma hans hafi fundið þessa ágætu leið að róa hann niður. Hún hafi tyllt honum fyrir framan sjónvarpið þegar að enski boltinn var í gangi. 

Orri Páll segir að bókin sé trúlega ekki ástarsaga í sömu merkingu og bækur Barböru Cartland, en ástarsaga sé þetta þó. „Það er fjöldinn allur af fólki sem deilir þessum minningum. Það er gleði og sorg og allt þar á milli. Það er eitthvað sem togar í okkur. Ég vildi skoða það meira. Hvers vegna hefur spark í öðru landi svona djúpstæð áhrif á sálarlíf þessarar þjóðar?” segir hann. 

Íslendingar fóru snemma að fylgjast með framvindu mála í enska boltanum en fyrstu árin var ekki fjallað um íþróttina af mikilli þekkingu. Fyrsta heimildin sem bókin vísar til er umfjöllun um ferð verkalýðsleiðtogans Héðins Valdimarssonar á Wembley-leikvanginn. Hann var þá staddur í Lundúnum að fylgjast með heimssýningunni og sogaðist með fólksfjöldanum á völlinn þar sem Newcastle og Aston Villa áttust við í úrslitaleik enska bikarsins árið 1924. „Hann á ekki orð yfir dýrðina og skrifar um þetta langa grein sem birtist í Heimskringlu, málgagni Vestur-Íslendinga. Augljóst að honum þykir gríðarlega mikið til koma en á móti kemur að hann hefur ekkert voðalega mikla þekkingu á leiknum,” segir Orri Páll.

Í bókinni eru viðtöl við stuðningsfólk fjölmargra liða og Orri Páll segir viðmælendur vera álíka galna og hann er sjálfur þegar kemur að enska boltanum. Ljóst er að tilfinningar Íslendinga til sinna liða eru miklar og hann nefnir stuðningsmenn Liverpool sem dæmi. „Myndu vaða eld og brennistein fyrir liðið flestir hverjir. En þessu fylgir stundum að það er enginn húmor fyrir því. Myndu frekar vilja taka yfir sig níð um móður sína og börnin sín heldur en nokkurn tímann liðið,” segir Orri Páll.