Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Glatað“ að óska eftir óþarfa undanþágu frá grímuskyldu

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir það glatað að fólk skuli óska eftir því við lækna að fá vottorð til að fá undanþágu frá grímuskyldu án þess að þurfa raunverulega á því að halda. Stundin fjallaði í gær um umræðu í Facebook-hópnum Coviðspyrnan um það hvernig hægt væri að verða sér úti um vottorð til að komast undan grímuskyldu.

„Þarna er verið að fjalla um það að fólk hafi samband við lækni og ljúgi að honum ástæðu til þess að þurfa ekki að bera grímu, eins og í verslunum. Það eru þessar undanþágur sem eru í reglugerðinni varðandi grímunotkunina. Það er auðvitað glatað að menn séu að standa í þessu. Ef fólk hefur ekki raunverulegar ástæður til að fá undanþágu frá grímunotkun, af hverju í ósköpunum er fólk að því?,“ segir Víðir í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2. 

Hann segir að samkvæmt upplýsingum frá heilsugæslunni hafi örfá slík vottorð verið gefin út. „Þetta er pínulítill hópur sem er að brölta í þessu,“ segir hann. Þó sé alltaf eitthvað um það að lögreglan fylgi eftir tilkynningum um brot á sóttvarnareglum. Um 3.000 tilkynningar hafi borist og að úr því hafi orðið um tvö hundruð mál. „Það er bæði einbeittur brotavilji í einhverjum tilfellum og síðan bara einhver vitleysa í gangi. En það er algjör minnihluti sem er ekki að vinna í þessu með okkur,“ segir hann. Hann búist við því að jákvæðar fregnir af bóluefni hafi frekar góð áhrif á úthald fólks í faraldrinum heldur en hitt.