Erfiðara að selja húsin sem fólk telur reimt í

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV

Erfiðara að selja húsin sem fólk telur reimt í

25.11.2020 - 08:41

Höfundar

Þegar Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður og rithöfundur var starfsmaður á Morgunblaðinu tók hún viðtal við fasteignasala sem fullyrti að það gæti verið snúið að selja hús ef sögur færu af draugagangi í þeim. Það varð að hluta kveikjan að nýjust glæpasögu hennar, Húsi harmleikja.

Hús harlmleikja er sjöunda bók Guðrúnar Guðlaugsdóttur um blaðamanninn Ölmu Jónsdóttur sem í þessari sögu dvelur í litlu húsi á Eyrarbakka. Söguefnið er reimleikar í húsum og ýmis áhrif þeirra.

Hugmyndin kviknaði að einhverju leyti þegar Guðrún var starfsmaður á Morgunblaðinu og hafði umsjón með Fasteignablaðinu. Hún tók viðtal við fasteignasala sem hafði áhugaverða sögu að segja úr fasteignabransanum. „Hann sagði að það væri erfitt að selja hús stundum vegna þess að það léki það orð á að það væru reimleikar í þeim. Mér fannst þetta áhugavert efni,“ segir Guðrún. Hún kíkti í Mannlega þáttinn á Rás 1 og sagði frá blaðamannastarfinu, nýju bókinni og draugaganginum.

Ástæðulaust að segja nákvæmlega hvaða hús er fyrirmyndin

Tvö börn Guðrúnar voru starfsmenn á byggðasafninu í Húsinu á Eyrarbakka og þangað kom móðir þeirra stundum í heimsókn. Hún áttaði sig á því að þetta væri kjörið svæði til að sviðsetja söguna. „Ég kom henni fyrir í ótilgreindu húsi, Ólafshúsi eins og það heitir í sögunni,“ segir Guðrún sem er með tiltekið hús í bænum í huga. „En það er ástæðulaust að fara svo nákvæmlega út í það.“

Sammannleg tilhneiging að drepa

Í bænum er staddur kvikmyndaleikstjóri og handritshöfundar, sem velta því fyrir sér að taka upp bíómynd á svæðinu, þegar morð er framið. „Alma heldur áfram að skrifa um reimleika í hinum ýmsu húsum, orðspor þeirra og áhrif á sölu. Jafnframt því sem hún er að leysa ráðgátuna um morðið sem framið er,“ segir Guðrún um sögusviðið.

Liggja listamenn þá undir grun? „Já, það má segja,“ svarar höfundurinn glettinn. „Það er ekki gaman að segja frá því en það er þannig. Það geta allir drepið. Það er bara sammannleg tilheiging virðist vera.“

Kafar í hinn mannlega veruleika

Guðrún hefur komið víða við á sínum fjölmiðlaferli en í dag er hún sjálfstætt starfandi. Hún hóf ferilinn sem kornung leikkona í framhaldsleikritum og var dagskrárgerðarkona á RÚV. Á Morgunblaðinu starfaði hún svo í 25 ár þar sem hún tók eftirminnileg viðtöl. „Mér fannst mjög gaman að skrifa fréttir á Morgunblaðinu en fljótt var ákveðið að ég yrði í Sunnudagsblaðinu að skrifa lengri viðtöl,“ segir hún.

Þar tók hún og skrifaði upp viðtöl við það sem kallað var venjulegt fólk og fólk sem hafði gengið í gegnum erfiðleika. „Ég kafaði æ dýpra í hinn mannelga veruleika og það hefur komið mér að miklu gagni í þessum skáldskaparskrifum.“ Hún hefur enda fyrst og fremst áhuga á því mannlega. „Margir hafa áhuga á náttúrunni eða fjallgöngum en ég hef mestan áhuga á fólki.“

Fólk er fyrst að fá vit í kollinn þegar það deyr

Það var ekki síst gaman að tala við fólk sem var komið á efri ár og hafði frá mörgu að segja, segir Guðrún. Hún rifjar upp orð Margrétar Indriðadóttur heitinnar, fyrrverandi fréttastjóra Ríkisútvarpsins:

Guðrún hugsaðu þér. Fólk er fyrst að fá eitthvað vit í kollinn þegar það deyr. Og þá koma nýir sem eru ekkert skárri til að byrja með.

 

Blaðamennska fyrir tíma snjallsímans

Þegar Blaðamannafélagið var 120 ára kom út bók með fimmtán viðtölum eftir reynda blaðamenn. Það var í höndum Guðrúnar að taka viðtölin sem birtust í bók sem nefnist Í hörðum slag.

Bókin er mikilvæg heimild meðal annars um hvernig blaðamannastarfið hefur þróast í kjölfar tækninýjunga. Guðrún segir þó að blaðamenn sem störfuðu fyrir tíma GSM-síma og internetsins hafi alltaf getað fundið upplýsingar og komist í samband við fólk. „Blaðamenn eru furðulunknir að finna fólk eftir ýmsum leiðum.“

Það þekkir Alma, söguhetja Guðrúnar, vel. „Hún er einkar leikin í að láta sér detta í hug hvernig hún getur náð í fólk. Blaðamenn hafa aðgang að svo mörgum,“ segir hún.

Að senda frá sér bók eins og að ala upp barn

Að fylgja eftir nýrri skáldsögu er óhefðbundið í ár því vegna fjöldatakmarkanna og samkomuhafta er ekki hægt að halda stóra upplestrarviðburði. Guðrún ætlar þó að lesa upp í Húsinu á Eyrarbakka og þeirri útsendingu verður streymt á vefnum. „Svo er ég að fara að lesa fyrir konur úti í bæ en það er ekki mikið um upplestra,“ segir hún.

Það að gefa út bók segir hún í raun ekki vera mjög frábrugðið uppeldi barna. „Þegar maður er búinn að ala upp barn fer það að heiman. Þegar það kemur í heimsókn er gaman en maður lifir ekki lífi þess,“ segir hún. Eins sé með bækurnar. „Núna er hún farin þessi bók og hún lifir sínu lífi með öðru fólki en mér. Ég er búin að ala hana upp og koma henni á blað og nú eru aðrir sem hafa gaman af því að lesa hana.“

Rætt var við Guðrúnu Guðlaugsdóttur í Mannlega þættinum á Rás 1.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Kannski er tilgangur okkar að vera glöð og elska“

Bókmenntir

Brask með dulrænu ívafi og nauðsynlegt smygl