
Á Spáni býðst öllum bólusetning án endurgjalds
Bólusett á 13.000 heilsugæslustöðvum
Áætlunin gerir meðal annars ráð fyrir að bólusetningar fari fram á 13.000 heilsugæslustöðvum um land allt, fólki að kostnaðarlausu, en almenningur verður þó ekki skyldaður í bólusetningu. Forsætisráðherra Spánar, Pedro Sanchez, lét hafa það eftir sér í síðustu viku að hann reiknaði með því að „mjög verulegur hluti spænsku þjóðarinnar gæti verið bólusettur [...] á fyrsta ársfjórðungi 2021.“
2,5 milljónir bólusettar á fyrstu þremur mánuðum næsta árs
Í spænska blaðinu El País segir að heilbrigðisyfirvöld búist við fyrstu skömmtunum af bóluefni til landsins í janúar, strax og spænska lyfjaeftirlitið hefur lokið athugun á þeim bóluefnum sem þegar eru fram komin. Í frétt blaðsins kemur fram að reiknað sé með því að um 2,5 milljónir íbúa á elli- og hjúkrunarheimilum, fatlaðra, heilbrigðisstarfsfólks og annars framlínustarfsfólks hafi fengið bólusetningu í lok mars á næsta ári.