Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Á Spáni býðst öllum bólusetning án endurgjalds

25.11.2020 - 05:43
epa08839156 A health worker takes a swab sample for an antigen covid-19 test at a health center in Badalona, Barcelona, Spain, 24 November 2020. According to authorities, the number of coronavirus cases in Catalunia continue to drop, although measures are still being carried out to avoid new cases.  EPA-EFE/MARTA PEREZ
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Framlínustarfsfólk, íbúar og starfsfólk elli- og hjúkrunarheimila og sambýla mikið fatlaðs fólks verða í forgangi þegar bólusetning við COVID-19 hefst á Spáni. Öllum mun þó standa bólusetning til boða með tíð og tíma, og verður hún gjaldfrjáls. Þetta tilkynnti Salvador Illa, heilbrigðisráðherra Spánar að loknum ríkisstjórnarfundi í gær, þar sem farið var yfir bólusetningaráætlun stjórnarinnar.

Bólusett á 13.000 heilsugæslustöðvum

Áætlunin gerir meðal annars ráð fyrir að bólusetningar fari fram á 13.000 heilsugæslustöðvum um land allt, fólki að kostnaðarlausu, en almenningur verður þó ekki skyldaður í bólusetningu. Forsætisráðherra Spánar, Pedro Sanchez, lét hafa það eftir sér í síðustu viku að hann reiknaði með því að „mjög verulegur hluti spænsku þjóðarinnar gæti verið bólusettur [...] á fyrsta ársfjórðungi 2021.“

2,5 milljónir bólusettar á fyrstu þremur mánuðum næsta árs

Í spænska blaðinu El País segir að heilbrigðisyfirvöld búist við fyrstu skömmtunum af bóluefni til landsins í janúar, strax og spænska lyfjaeftirlitið hefur lokið athugun á þeim bóluefnum sem þegar eru fram komin. Í frétt blaðsins kemur fram að reiknað sé með því að um 2,5 milljónir íbúa á elli- og hjúkrunarheimilum, fatlaðra, heilbrigðisstarfsfólks og annars framlínustarfsfólks hafi fengið bólusetningu í lok mars á næsta ári.