Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir kröfuna skýra og að framlög hafi aukist frá 2017

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, segir framlög stjórnvalda til Landspítalans á síðustu árum sýna að það sé mikill vilji til þess að reka öfluga heilbrigðisþjónustu hér á landi. Hann bendir á að fjárframlög til Landspítalans hafa aukist um 20 milljarða frá 2017.

Landspítalinn metur aðhaldskröfu stjórnvalda fyrir næsta fjárlagaár 4,3 milljarða og reiknar þar inn uppsafnaðan hallarekstur síðan 2017 og hærra rekstarkostnaðarmat en gert er í fjárlagafrumvarpinu.

Samanlagt er áætlað að fjárframlög til Landspítalans á næsta ári verði 79,7 milljarðar króna. Ríflega sex milljarðar eru rekstrartekjur af spítalanum, og tæplega tveir milljarðar eru fjárfestingarframlög. Eftir stendur 73,4 milljarða framlag úr ríkissjóði.

Það hefur verið á ráki hver aðhaldskrafan til spítalans á næsta ári er. Willum Þór segir það alveg skýrt: „Hún er 0,5 prósent. Það eru 400 milljónir í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021. Við verðum að aðgreina þetta frá þessari tölu 4,3 milljarðar sem hefur verið í umræðunni og er uppsafnaður halli frá 2017.“

Hallinn flyst á milli ára

„Það er bara þannig í lögum um opinber fjármál að halli flyst með stofnunum á milli ára. Þetta hefur verið plús mínus eitt prósent á milli ára af heildar umfanginu sem er ekki stórkostlegt,“ segir Willum Þór. „En þegar þetta safnast upp þá verður þetta þessi tala. Framlögin til spítalans eru tæpir 80 milljarðar fram á næsta ár og hafa aukist um 20 milljarða frá 2017.“

Uppsafnaður halli spítalarekstrarins í lok árs 2019 var um 3,8 milljarðar króna. Útkomuspá spítalans fyrir árið 2020 gerir ráð fyrir að reksturinn skili rúmum milljarði króna í afgang, sem kemur til frádráttar á uppsöfnuðum halla. Þá verður hallinn 2,7 milljarðar króna um áramótin sem spítalinn vill fá að vinna upp á næstu tveimur árum.

Í fjárlögum er gert ráð fyrir að rekstur spítalans kosti um 71,7 milljarða króna en miðað við óbreyttan rekstur Landspítalans áætlar hann að kostnaðurinn verði 73,2 milljarðar króna á árinu 2021. Og þar er 1,5 milljarða króna gat sem kemur til viðbótar við uppsafnaðan rekstrarhalla spítalans.

Útgjaldasvigrúmið meira en aðhaldskrafan

„Það er síðan bara þannig í lögunum og ráðherra ber ábyrgð á málaflokknum og er í samskiptum við forstöðumann spítalans og rekstraráætlanir sem þeir gera gera áætlanir um að vinna niður þennan halla eða vinna á honum,“ segir Willum Þór.

„Aðhaldskrafan á næsta ári – þessar 400 milljónir – útgjaldasvigrúmið á þetta málefnasvið er næstum þrisvar sinnum það. Það er ekkert mál fyrir ráðherrann, alþingi og forstöðumenn spítalans að takast á við það,“ segir Willum Þór enn fremur.

Fjárlaganefnd fjallar um Landspítalann

Landspítalinn kemur á fund fjárlaganefndar á morgun til þess að fara yfir rekstraráætlanir næsta árs. „Og við tökum það samtal og svo fáum við heilbrigðisráðuneytið á föstudaginn. Þannig fer þetta nú bara fram,“ segir Willum Þór sem er formaður nefndarinnar.

Hann segir það miður að umræðan um fjármögnun spítalans fjalli um niðurskurð til spítalans, en ekki þær auknu fjárveitingar sem stjórnvöld hafa lagt til síðustu ár. Willum er þingmaður Framsóknarflokksins sem er í meirihlutasamstarfi á Alþingi með Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokki.

„Ég verð nú bara að segja að það sem er miður er að umræðan sé á því plani að það sé einhver niðurskurður í gangi eða að við viljum ekki öfluga heilbrigðisþjónustu. Framlögin benda til þess að það er mikill vilji og það er í stjórnarsáttmála að bæta úr. Það hefur verið settur aukinn kraftur í að byggja upp nýjan spítala og bæta aðbúnað. Þannig að það er verið að verja auknum fjármunum í að byggja upp traust og öflugt heilbrigðiskerfi.“