Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Mikil mótmæli í Brasilíu vegna dauða þeldökks manns

24.11.2020 - 05:52
epa08836586 People protest against the murder of a black man, which occurred in the Carrefour supermarket in Porto Alegre, in the city of Sao Goncalo, Brazil, 22 November 2020. The outrage over the brutal murder of a black customer at the hands of two security guards from a supermarket maintained the mobilizations in Brazil of anti-racist groups and once again aroused public opinion in the country.  EPA-EFE/ANTONIO LACERDA
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Lögregla í brasilísku borginni Porto Alegre beitti í gær táragasi og gúmmíkúlum til að leysa upp mótmæli framan við stórmarkað Carrefour-verslunarkeðjunnar.

Fjölmenn mótmæli hafa staðið yfir í borginni um nokkra daga skeið eftir að upp komst að hvítir öryggisverðir í Carrefour-stórmarkaði börðu þeldökkan mann til bana. 

Myndbandsupptaka sýnir öryggisvörð ítrekað kýla hinn fertuga Joao Alberto Silveira Freitas í andlit og höfuð meðan annar heldur honum föstum.

Að sögn AFP fréttastofunnar urðu mótmælin í gær til þess að teppa umferð við útibú Carrefour-keðjunnar í borginni auk þess sem nokkrir mótmælenda grýttu og lögreglu og skutu púðurkerlingum að henni.

Stjórnendur verslunarkeðjunnar hafa heitið sem nemur fimm milljónum dala til viðbragðs við kynþáttahatri, „þótt við vitum að það bæti ekki fyrir lífið sem tapaðist.“ Í yfirlýsingu segir að fjárframlagið sé mikilvægt fyrsta skref til að bregðast við landlægri kynþátthyggju í Brasilíu.

Frá því að upp komst um athæfi öryggisvarðanna hafa brotist út harkaleg mótmæli við útibú verslunarkeðjunnar víða um land auk þess sem margir hafa lýst því yfir þeir muni sniðganga verslanir hennar.

Alexandre Bompard, forstjóri Carrefour fordæmdi morðið á Silveira Freitas umsvifalaust, sendi aðstandendum hans djúpar samúðarkveðjur og sleit viðskiptum við öryggisfyrirtækið sem verðirnir störfuðu hjá.