Jafnvægi ljóss og myrkurs

Mynd: - / Benedikt

Jafnvægi ljóss og myrkurs

24.11.2020 - 09:26

Höfundar

Dauðinn er sífellt nálægur í nýjustu skáldsögu Auðar Övu Ólafsdóttur, segir Maríanna Clara Lúthersdóttir gagnrýnandi. „Frásögnin er oft knöpp en milli línanna liggur hafsjór af myrkri og sorg en líka mikið ljós.“

Maríanna Clara Lúthersdóttir:

Bækur Auðar Övu Ólafsdóttur eru ólíkar innbyrðis, hún skrifar ekki sömu söguna aftur heldur rær sífellt á ný mið. Engu að síður hefur rödd hennar sérstöðu í bókmenntaflóru Íslands. Þannig er ný skáldsaga hennar, Dýralíf, ólík fyrri bókum en ber þó höfundareinkennum hennar skýrt vitni. Lágstemmd kímnin, gríðarsterk persónusköpun og óvenjuleg efnistök finnast hér öll í ríkum mæli.

Í Dýralífi kynnast lesendur ljósmóðurinni Dómhildi, eða Dýju, sem býr á Ljósvallagötu í Reykjavík. En ekki síður kynnast þeir nöfnu hennar og ömmusystur, Dómhildi eldri, sem einnig starfaði sem ljósmóðir í hartnær hálfa öld og hljóma þessar tvær raddir alla bókina. Dýja er af fjórðu kynslóð ljósmæðra og eins og margar þeirra er hún ógift og barnlaus. Meðan Dómhildur eldri, kölluð Fífa, lifði voru þær nöfnur nánar og þegar Fífa lést arfleiddi hún Dýju að hálfri íbúð sinni á Ljósvallagötunni ásamt öllu innbúi, Dýraverndunarfélag Íslands fékk hinn helminginn. Bókin hefst skömmu fyrir jól, myrkrið grúfir yfir öllu og spáð er gríðarlegu óveðri yfir hátíðarnar. Dýja vinnur mikið en hefur einnig verið að lesa sig í gegnum þrjú ófullgerð handrit sem Fífa skildi eftir sig og bað hana fyrir. Lestur handritanna og tilraunir Dýju til þess að skilja vangaveltur ömmusystur sinnar ásamt daglegri vinnu á fæðingardeildinni mynda smám saman flókinn vefnað og liggja þræðirnir í óvæntar áttir, allt frá Blaise Pascal til hvalahljóða, gegnum myrkrið og til ljóssins.

Dýja er fremur fjarlæg persóna og þótt það sé hún sem segir söguna hleypir hún lesandanum ekki nálægt sér. Hún lýsir atburðum og samtölum án athugasemda frá eigin brjósti og lesandinn þarf að vera duglegur að lesa á milli línanna. Síðar kemur svo í ljós að þessi fjarlægð Dýju á sér mögulega sínar ástæður. Að sumu leyti er ömmusystirin, Fífa, jafnvel aðgengilegri þó að hún birtist okkur aðallega í margsaga frásögnum fyrrum vinnufélaga og svo í handritunum sem eru bæði ótímasett og afskaplega óreiðukennd.

Fífa virðist hafa haft handritin þrjú í smíðum árum ef ekki áratugum saman. Þau eru misáhugaverð en skemmtilegastar eru vangaveltur hennar um mannskepnuna sem dýrategund og um dýr almennt en þar stefnir hún saman alls kyns ólíklegum fróðleik, til dæmis um hvali, sem kemur í ljós að reiða sig líka á aðstoð ljósmæðra í fæðingu. Þeir fæða í vatni og meðan kýrin jafnar sig hjálpar önnur kýr ungviðinu upp svo það geti dregið andann í fyrsta sinn. En skrifin snúast einnig mikið um ljósið, um skort á ljósi, um tengsl mannsins og ljóssins og um ljósið í miðju myrkursins.

Í fórum Fífu finnast auk þess skrif langömmu Dýju sem einnig var ljósmóðir sem og viðtöl við aldraðar starfssystur Fífu utan af landi. Í gegnum frásagnir ljósmæðra frá ólíkum tímum birtist brotakennd saga þessarar fornu starfsstéttar og hvernig vinnan hefur þróast og breyst þótt grunnurinn sé alltaf sá sami; Ljósmóðir hjálpar nýju lífi í heiminn. Frásagnir af glæfralegum ferðum elstu ljósmóðurinnar eru kannski ekki nýjar af nálinni en engu að síður sláandi hvað varðar miskunnarleysi náttúrunnar og frumstæð vinnuskilyrði. Öllu óvæntari eru skoðanir ömmusysturinnar á margs kyns nýjungum sem hún upplifði á sinni löngu starfsævi; fæðingalaugar, syttri legutími kvenna og feður viðstaddir fæðinguna. Því síðastnefnda var hún ekki sérlega hrifin af sem gæti hljómað undarlega þar sem hún var um flest víðsýn og studdi meira að segja ljósfeður til starfa. En raunsæisleg frásögnin er fljót að kippa lesandanum niður á jörðina og inn í þann veruleika sem var Fífu: „Á þeim tíma sem frænka mín starfaði á deildinni voru makar karlmenn og karlmenn af hennar kynslóð komu oft beint af skrifstofunni á deildina í jakkafötum og með bindi, þeir vissu ekki hvar þeir áttu að hengja upp frakkann eða leggja frá sér hattinn og réttu ljósmóðurinni, aðrir komu rakleiðis af verkstæðinu með smurolíu á höndunum. Það var kvartað undan því að hún léti feðurna afskiptalausa og einbeitti sér að móðurinni“ (bls. 24). Í einum svip verður lesandanum ljóst hvernig aðkoma karlmanna að fæðingarferlinu gat hreinlega þvælst fyrir ljósmæðrunum og vinnu þeirra.

Það kemur í ljós að Dýja hefur ekki hreyft við innbúi gömlu konunnar eftir að hún flutti inn fyrir tæpum fjórum árum og er íbúðin nánast eins og safn. Það er eins og Dýja haldi að sér höndum, forðist að setja mark sitt á umhverfið, á lesandann, á lífið. Hún vinnur mikið og forðast stórfjölskylduna þótt hún sé raunar í samskiptum við systur sína sem er veðurfræðingur og varar hana sífellt við yfirvofandi óveðri. Hún virðist gefa lítið af sér en við skiljum að það er blekking þegar konur sem hún hefur hjálpað við fæðingar þakka henni innilega, fyrir hjálp, fyrir orð, fyrir ljóð. Og ekki síður þegar einn faðirinn vill fá einmitt hana heim til þess að ræða við konu sína, nýbaka móður sem getur ekki hætt að gráta yfir því að hafa fætt barn inn í þennan heim, barn sem hljóti auðvitað á endanum að deyja.

Eins og oft áður vinnur Auður með hið myndræna til að tjá ýmislegt sem ekki verður betur sagt með texta. Hér á það sérstaklega vel við þar sem ömmusystirin virðist að lokum hafa gefist upp á orðum. Þegar handritin þrjú þrýtur rekst Dýja á smjörpappírsarkir með uppskrift að útsaumsmynd sem gæti mögulega útskýrt það sem handritin fá ekki tjáð. Það flóknasta við sauminn telur Fífa vera hvernig eigi að ná ljósinu almennilega. Í stofunni er fyrir stórt útsaumað veggteppi, byggt á málverki eftir flæmska 15. aldar málarann Jean Hey af Maríu mey með Jesúbarnið við brjóstið. Fífa, sem var afar fær hannyrðakona, hefur þó vikið frá fyrirmyndinni þegar kemur að brjóstinu, sem mikil alúð hefur verið lögð í, og hvernig guðsmóðirin beinir því að barninu, enda þótti hún hafa sérstaka hæfileika í að hjálpa mæðrum að leggja barn á brjóst og vissi auðvitað mun meira um efnið en málarinn.

Auður hefur áður sýnt að hún hefur á valdi sínu alveg sérstaka tegund alvörublandins húmors sem stingur iðullega óvænt upp kollinum í aðstæðum sem geta verið grafalvarlegar en um leið bráðfyndnar. Stundum felst húmorinn í persónum sem eru dregnar skýrum dráttum, ýktar en þó svo sannfærandi og sannar. Skínandi dæmi hér er móðir Dýju, útfararstjórinn, sem er svo upptekin af dauðanum að það tekur því ekki að skipuleggja neitt, því það er jú ómögulegt að vita hvenær kallið kemur. „Tekur því nokkuð, var setning sem hún notaði oft. Hún undraðist þegar tannlæknirinn gaf henni tíma eftir ár, hvað ef, hugsaði hún, jafnvel leikhúsferð gat vafist fyrir henni, því maður vissi aldrei, hvað ef hún gæti ekki notað miðana, hún hafði nógu oft séð tvö auð sæti á besta stað í miðjum sal“ (bls. 62-63).

Dauðinn er sífellt nálægur. Hann er nálægur í dauðaþráhyggju móðurinnar og starfi foreldranna sem reka útfararstofu. Hann er nálægur á deildinni þegar börn fæðast andvana, hann er nálægur í formæðrum hennar sem allar eru horfnar á braut, hann er nálægur í fortíð Dýju sjálfrar og síðast en ekki síst í kirkjugarðinum sem blasir stöðugt við hinum megin við Ljósvallagötuna. En um leið og dauðinn er alls staðar og myrkrið umlykur landið eru sífellt ljósgeislar að brjóta sér leið á einn eða annan hátt. Ljósið er í frásögninni sjálfri, en gegnsýrir líka textann þar sem Dýja er ljósmóðir og býr á Ljósvallagötunni. Þetta jafnvægi ljóss og myrkurs er undirliggjandi alla söguna. Frásögnin er oft knöpp en milli línanna liggur hafsjór af myrkri og sorg en líka mikið ljós.

Dýralíf er lágstemmd bók, þrátt fyrir óveðrið sem skellur á, yfirvofandi heimsendi af völdum hamfarahlýnunar og þær hamfarir sem fæðing barns alltaf er. Engu að síður er undiraldan sterk og hrífur lesandann með sér inn í myrkrið og þaðan í ljósið.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Kannski er tilgangur okkar að vera glöð og elska“

Menningarefni

Að komast lifandi frá hlutverki konunnar

Bókmenntir

Samfélag sem vængstýfir næmt og skapandi fólk

Bókmenntir

Skandínavar sjá myrkur en suðrænar þjóðir ljós