Haustlitaferð um sálarlíf Brahms

Mynd: - / SÍ

Haustlitaferð um sálarlíf Brahms

24.11.2020 - 17:00

Höfundar

Johannes Brahms gat verið hrjúfur maður en í heimsendingu frá Sinfóníuhljómsveit Íslands heyrist hvað hann gat verið mildur, mjúkur, hlýr og svolítið melankólískur.

Halla Oddný Magnúsdóttir viðburðastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands skrifar:

Í Heimsendingu dagsins frá Sinfóníuhljómsveit Íslands hljómar kafli úr einu af öndvegisverkum Johannesar Brahms. Sem fyrr sjá hljóðfæraleikarar SÍ um tónlistarflutninginn, en í dag er það Rúnar Óskarsson klarinettuleikari sem leikur ásamt Strokkvartettnum Sigga. Kvartettinn hefur starfað frá árinu 2012 og vakið athygli fyrir fjölbreyttan og framsækinn flutning á tónlist frá endurreisnartímanum til okkar daga. Kvartettinn skipa þau Una Sveinbjarnardóttir og Helga Þóra Björgvinsdóttir fiðluleikarar, Þórunn Ósk Marinósdóttir víóluleikari og Sigurður Bjarki Gunnarsson sellóleikari.

Sneri aftur úr helgum steini

Á efnisskrá Heimsendingarinnar er fyrsti kaflinn, Allegro, úr Klarinettukvintett Brahms í h-moll ópus 115. Þótt flestum heimildum beri saman um að Johannes Brahms hafi verið hrjúfur maður í viðkynningu býr tónlist hans oft og tíðum yfir óviðjafnanlegri mýkt og hlýju. Þetta heyrist glöggt í Klarinettukvintettinum, sem þó er einnig djúpur og melankólískur, saminn af þroskuðu tónskáldi; fullorðnum manni í hausti lífs síns. Reyndar var Johannes Brahms opinberlega sestur í helgan stein nokkru áður en verkið var samið, en hann hafði tilkynnt um það 57 ára gamall að hann hygðist draga sig alfarið í hlé frá tónsmíðum. Það sem svo gerðist var töfrum líkast: Í heimsókn til Meiningen í Suðaustur-Þýskalandi heyrði Brahms leik klarinettuleikarans Richards Mühlfeld og varð svo bergnuminn af fegurð hans og mýkt að hann fann sig knúinn til að hætta við að hætta og semja tónverk fyrir þennan einstaka tónlistarmann.

Einstök kammerverk

Þetta var reyndar ekki í fyrsta skipti sem hrífandi klarinettuleikari breytti framgangi tónlistarsögunnar, því rúmri öld fyrr hafði annað tónskáld, Wolfgang Amadeus Mozart, komist í kynni við einn slíkan, Anton Stadler að nafni, og samið fyrir hann sum af dáðustu verkunum sem til eru fyrir hljóðfærið, svo sem klarinettukonsertinn og klarinettukvintettinn í A-dúr. Kynni Brahms af Mühlfeld voru ekki síður gjöful, og þykja kammerverkin sem Brahms samdi á þessu síðasta sköpunarskeiði lífs síns einstök í tónlistarsögunni. Klarinettukvintettinn op. 115 er litrík og ástríðufull tónsmíð, eins konar haustlitaferð um sálarlíf tónskáldsins.

Heimsendingar Sinfóníuhljómsveitar Íslands birtast á menningarvef RÚV og vefnum sinfonia.is kl. 17 á þriðjudögum og fimmtudögum meðan samkomubann hamlar venjubundnu tónleikahaldi.

 

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Hálfkláruð hornsónata Beethovens sem sló í gegn

Klassísk tónlist

Heimsending frá Sinfóníuhljómsveit Íslands: Dúó Edda