Flogið aftur í tímann

Mynd: Vipada Kanajod / RÚV/Landinn

Flogið aftur í tímann

24.11.2020 - 14:30

Höfundar

Björn Rúriksson, ljósmyndari, leiðsögumaður og flugmaður, er á leiðinni í loftið frá Selfossflugvelli ásamt félaga sínum Helga Sigurðssyni. Leið þeirra liggur aftur í tímann en á næstu dögum kemur út ljósmyndabók eftir Björn sem heitir Flogið aftur í tímann.

 

Miklar breytingar á byggð og landslagi

„Þessi hugmynd kviknaði þegar ég var að fara í gegnum myndasafnið mitt í vor og svo var ég að fljúga yfir einhverja af þeim stöðum sem ég hafði verið að skoða á gömlu myndunum. Þá sá ég hversu mikil breyting hefur orðið á byggð, já og landslaginu líka,“ segir Björn. Í nýju bókinni hans Björns eru myndir af þéttbýlisstöðum á Höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi, allt austur til Hafnar í Hornafirði, nýjar myndir og til samanburðar myndir sem teknar voru fyrir fjörtíu til fimmtíu árum. Þar er líka að finna myndir af jöklum, fyrr og nú, og þar sést glöggt hversu mjög jöklarnir hafa hopað.