Á listanum er að finna lög á borð við „Little Nokia" í flutningi Bree Runway, „Back Door" suður-kóresku hljómsveitarinnar Stray Kids og „WAP" með rapparanum Cardi B og Megan Thee Stallion.
Lagið hans Daða Freys er sagt vera algert heilalím, dásamlegt rafpopp með grípandi viðlagi og dillandi bassalínu. Think About Things, sem eins og flestir muna átti að vera framlag Íslands í Eurovision söngvakeppninni 2020, er í sjötta sæti lista Time.
Í umfjölluninni er sagt að lagið hafi verið álitið sigurstranglegt en hafi öðlast eigið líf og farið eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla. Ekki síst megi þakka það danssporunum frægu en lagið sjálft sé nógu gott til að ná langt út fyrir Eurovision-heiminn.
Á toppi listans trónir lagið „People I’ve Been Sad“ með Christine and the Queens sem höfundurinn Héloïse Letissier samdi á síðasta ári eftir fráfall móður sinnar.