Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Brynjar segist vera búinn að skamma Bjarna „aðeins“

24.11.2020 - 21:11
Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins segist ekki ætla að taka þátt í pólitískum upphlaupum og þess vegna hafi hann ákveðið að hætta í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Hann segir að formennska þingmanna stjórnarandstöðuflokkanna í nefndum þingsins hafi skaðað ríkisstjórnarsamstarfið.

Brynjar var gestur Kastljóss í kvöld.

Í viðtali við Vísi í dag sagði Brynjar að hann hefði óskað eftir því að fá að hætta í nefndinni og teldi starf hennar vera sjónarspil og pólitískan leik 

Í Kastljósi sagði Brynjar að hann teldi að þingmenn stjórnarandstöðunar, þar á meðal formaður nefndarinnar, væru með sýndarmennsku og leikþætti. „Ég er ekkert að eyða tíma mínum í svona leikþætti meira en ég þarf,“ sagði Brynjar. 

„Ætla ekki að vera með í því ef ég þarf þess ekki“

Brynjar sagði að umræða í nefndinni um vanhæfni sjávarútvegsráðherra hefði farið í taugarnar á honum. „Ég eyddi ótrúlegum tíma í eitthvað sem var fullkomnlega tilgangslaust,“ sagði Brynjar í Kastljósi. Hann sagði nefndina hafa verið notaða í pólitískum upphlaupum. „Ég ætla ekki að vera með í því ef ég þarf þess ekki,“ sagði hann.

Hann sagði að tiltekin lög og reglur giltu um hæfi eða vanhæfi ráðherra. Það væri ekki í verkahring nefndarinnar að úrskurða um það.

Brynjar fór á fund Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins og tjáði honum að hann vildi hætta í nefndinni. Hann hefði í raun verið að skamma Bjarna og Sjálfstæðisflokkinn með þessu. 

Hvað sagði Bjarni við þig þegar þú varst að skamma hann fyrir að láta þetta gerast svona? „Ég er auðvitað búinn að skamma hann aðeins …. ég skammast ekkert mikið. En ég hef aðeins fett fingur út í stjórn þessarar nefndar sem stjórnarandstaðan hefur verið með. Mér finnst hún ekki farsæl og ekki góð, hún hefur skaðað okkur og skaðað stjórnarsamstarfið.“

Brynjar segir það skapa vanda að þrír af þeim níu sem sitja í nefndum Alþingis geti krafist þess að mál séu tekin fyrir. Þannig lendi mál á borðum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem „fráleitt sé að nefndin eyði tíma í“. Hann segir það skipta máli hver fari með formennsku nefnda. Hvernig staðið hafi verið að stjórn sumra nefnda hafi verið vont fyrir ríkisstjórnina og meirihlutasamstarfið.

„Við verðum að athuga að við getum ekki haldið svona áfram“

Brynjar er annar tveggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins í hópi fólks sem stendur á bak við vefsíðuna Kófið.is. Hinn þingmaður flokksins er Sigríður Andersen. Hópurinn telur að sóttvarnayfirvöld og stjórnvöld séu á rangri leið í viðbrögðum sínum við kórónuveirufaraldrinum, frelsi fólks hafi verið skert og að of hart hafi verið brugðist við. 

Hann segir að vísað sé til sérfræðinga og vísindamanna á síðunni. Spyrja megi þeirrar spurningar hvort aðgerðirnar beinist í raun að þeim sem séu í áhættuhópum eða hvort þær geti skaðað heilsu fólks. „Við verðum að athuga að við getum ekki haldið svona áfram. Herða - slaka - 10 manna samkoma upp í 20 manna; atvinnureksturinn er alveg jafn dauður hvort sem þú hefur tíu eða tuttugu manns eða jafnvel þrjátíu. Menn eru bara að stóla á að það komi eitthvað og reddi okkur.“

Það er hlutverk stjórnmálamanna að efast 

„Við vitum, ef við lokum alla inni þá mun smitum fækka. En vitum við hvaða afleiðingar það hefur til lengri tíma á líf og heilsu fólks?“ spurði Brynjar. „Hvaða áhrif hefur það á heilbrigðiskerfið ef þjóðarframleiðslan fer niður um þriðjung? Og hvaða áhrif hafa þessar aðgerðir haft á aðra heilbrigðisþjónustu í landinu?“

Ef þú værir heilbrigðisráðherra, myndir þú þá tala eins og þú talar? „Nei, örugglega ekki.“

En þurfa þingmenn ekki að setja sig í spor þeirra sem taka þessar ákvarðanir? „Jú, enda hef ég ekki sagt neitt slæmt um þetta fólk.“

Er ekki ábyrgðarhlutverk hvernig þingmenn setja fram sínar skoðanir? „Ef þú getur ekki gert það, þá áttu ekkert erindi í stjórnmál. Þú átt að efast. Það er hlutverk stjórnmálamanna.“