Farþegum sem ætla að ferðast með ástralska flugfélaginu Quantas í framtíðinni verður gert að sýna fram á að þeir hafi verið bólusettir gegn COVID-19. Þetta segir Alan Joyce forstjóri flugfélagsins.
Joyce segir brýna þörf verða á slíku eftir að bóluefni verður komið í almenna notkun. Hann kveðst jafnframt hafa heyrt að hið sama verði uppi á teningnum hjá öðrum flugfélögum heimsins.
Nú séu starfsmenn Quantas að undirbúa breytingar á ferðaskilmálum í millilandaflugi og að eina undantekningin frá bólusetningarkröfunni verði fyrir fólk sem ekki má bólusetja, af læknisfræðilegum ástæðum.
Flugfélög um alla veröld hafa orðið mjög illa úti í faraldrinum, hafa tapað gríðarlegum fjárhæðum og vinna nú hörðum höndum að því finna leiðir til að vinna sig út úr þeirri stöðu.