
Áramótabrennurnar í uppnámi
Áramótabrennur eru séríslenskur siður og hafa verið órjúfanlegur hluti af hátíðarhöldum landsmanna. Allra fyrsta dæmið um slíka samkomu er talin vera brenna sem skólapiltar í Hólavallaskóla héldu árið 1792. Hálfri öld seinna voru slíkar brennur orðnar nokkuð algengar, samkvæmt Vísindavefnum.
Í dag eru áramótabrennur út um allt. Til að mynda voru sautján áramótabrennur á höfuðborgarsvæðinu um síðustu áramót og hátt í þúsund erlendir ferðamenn sóttu brennu í Kópavogi í fyrra.
Á tímum COVID-19 faraldursins eru mannfagnaðir hins vegar ekki taldir skynsamlegir. Sóttvarnayfirvöld hafa til að mynda sagt að þriðja bylgja faraldursins hafi verið borin uppi af litlum hópsýkingum. Og frá því að gripið var til samkomutakmarkana vegna farsóttarinnar hafa mest 500 mátt koma saman. Ólíklegt er að slíkar samkomur verði haldnar fyrr en bóluefni er komið.
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, segir í samtali við fréttastofu að á fundi bæjarráðs í morgun hafi sú hugmynd verið rædd hvort ekki væri hægt að vera með útsendingu frá brennu í gegnum netið og streyma henni þannig til bæjarbúa.
Til að mynda hafi hann sjálfur leikið í litlum leikþætti ásamt tveimur stúlkum og varaforseta bæjarstjórnar í kringum tendrun jólatrésins. Leikþátturinn verður frumsýndur á laugardag.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir við fréttastofu að yfirvöld hafi ekki tekið afstöðu til þess hvernig áramótunum verður háttað. Ný reglugerð eigi að taka gildi 2. desember og mun væntanlega gilda fram yfir jól. „Það eru ákveðnar fjöldatakmarkanir í gildi og hvers konar hópamyndanir eru ekki góðar. Það hefur sýnt sig að um leið og við minnkum þann fjölda sem má koma saman þá dregur úr faraldrinum.“