
Áhrif COVID-19 á magn koltvísýrings lítil
Þetta kemur fram í árlegri skýrslu stofnunarinnar um magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Meðal þeirra efna sem teljast sem gróðurhúsalofttegundir, auk koltvísýrings, eru metan og nituroxíð. Aukið magn þeirra í andrúmsloftinu leiðir til hærra hitastigs á jörðinni.
Niðurstöðurnar byggjast meðal annars á mælingum frá 5. febrúar til 6. maí í þremur evrópskum borgum: Berlín í Þýskalandi, Heraklíon í Grikklandi og Flórens á Ítalíu. Þrátt fyrir að vel megi greina áhrif sóttvarnaaðgerða í útblæstri segir stofnunin að áhrif minni losunar á magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu séu hverfandi.
Útblástur dróst saman um 17% fyrr á árinu þegar strangar sóttvarnareglur vegna COVID-19 voru í gildi víða um heim. Þrátt fyrir þennan samdrátt þegar aðgerðir voru sem mestar hefur magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti aukist á nýjan leik eftir að slakað var á aðgerðum.
„Minnkandi útblástur vegna sóttvarnaaðgerða er bara agnarsmár depill á línuritinu til lengri tíma litið. Við þurfum að koma kúrvunni niður til frambúðar,“ segir prófessor Petteri Taalas yfirmaður Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar í samtali við breska ríkisútvarpið BBC.