Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Áhrif COVID-19 á magn koltvísýrings lítil

epa000464343 A view of London taken from the south London Thursday, 23 June 2005 following a government smog warning for the capital and south eastern England because of the high levels of air pollution. Temperatures in the city Thursday expect to reach
Loftmengun yfir Lundúnum fyrir nokkrum árum. Mynd: EPA
Magn koltvísýrings í andrúmsloftinu hefur ekki minnkað þrátt fyrir mikinn samdrátt í efnahagslífi heimsins, sem rekja má til kórónuveirufaraldurinsins og sóttvarnaaðgerða, og að fólk ferðist mun minna. Útblástur hefur dregist saman en það haft lítil áhrif, að sögn Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar WMO.

Þetta kemur fram í árlegri skýrslu stofnunarinnar um magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Meðal þeirra efna sem teljast sem gróðurhúsalofttegundir, auk koltvísýrings, eru metan og nituroxíð. Aukið magn þeirra í andrúmsloftinu leiðir til hærra hitastigs á jörðinni.

Niðurstöðurnar byggjast meðal annars á mælingum frá 5. febrúar til 6. maí í þremur evrópskum borgum: Berlín í Þýskalandi, Heraklíon í Grikklandi og Flórens á Ítalíu. Þrátt fyrir að vel megi greina áhrif sóttvarnaaðgerða í útblæstri segir stofnunin að áhrif minni losunar á magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu séu hverfandi.

Útblástur dróst saman um 17% fyrr á árinu þegar strangar sóttvarnareglur vegna COVID-19 voru í gildi víða um heim. Þrátt fyrir þennan samdrátt þegar aðgerðir voru sem mestar hefur magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti aukist á nýjan leik eftir að slakað var á aðgerðum.

„Minnkandi útblástur vegna sóttvarnaaðgerða er bara agnarsmár depill á línuritinu til lengri tíma litið. Við þurfum að koma kúrvunni niður til frambúðar,“ segir prófessor Petteri Taalas yfirmaður Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar í samtali við breska ríkisútvarpið BBC.