Uppgötvum umhverfi okkar

Mynd: Sunna Valgerðardóttir / RÚV

Uppgötvum umhverfi okkar

23.11.2020 - 12:04

Höfundar

Páll Jakob Líndal umhverfissálfræðingur fjallaði í pistli í Samfélaginu á Rás 1 um hvernig staðir og umhverfi geta haft áhrif á okkur, veitt okkur gleði og fyllt okkur öryggi meðan aðrir staðir eru fráhrindandi og valda vanlíðan.

Áhrif umhverfis

Ólíkir staðir hafa ólík áhrif á okkur, er það ekki?

Finnum við ekki öll fyrir því?

Jú jú, við finnum fyrir því, spurningin ætti kannski frekar að vera: Erum við eitthvað að pæla í því?

Jújú, við gerum það, er það ekki? Við gerum það kannski bara alltof sjaldan?

Það er a.mk. mín reynsla, hafandi starfað innan umhverfissálfræðinnar í vel á annan áratug, að almennt séð spáum við, með meðvituðum hætti, frekar lítið í umhverfi okkar.

Við kjósum frekar að beina athyglinni eitthvað annað, við erum að velta alls konar hlutum og verkefnum fyrir okkur fram og aftur, við spáum í okkur sjálf og við spáum í annað fólk. Sumt sem við spáum í er gagnlegt - annað er óttalegt hugjórtur.

Það var nýlega að ég og konan mín ákváðum á mála stofuna heima og skipta þar um gardínur. Við höfðum hugsað um þetta í marga, marga mánuði en einhvern veginn komst þetta aldrei í verk, við vorum með hugann við annað. Svo allt í einu, gengum við í verkið og þvílíkur léttir! Þvílíkt frelsi!

Þetta var bara allt annað líf! Og þrátt fyrir að hafa verið í bransanum í meira en 15 ár, þá kom það mér á óvart hversu mikil áhrif þessi breyting hafi á mig.

Kannast þú við eitthvað í þessa veru úr eigin lífi?

Ég er viss um það.

Þess vegna segi ég þetta: Við hugum oft ekki nóg að áhrifum umhverfisins á okkur, við veitum umhverfinu ekki nægjanlega athygli, við verðum samdauna því og án þess að við gerum okkur grein fyrir því þá dregur það stundum úr okkur þróttinn.

En svo getur umhverfið líka togað í okkur og veitt vellíðan, án þess að við áttum okkur á því.

Og það var einmitt það sem gerðist þegar augu mín opnuðust fyrst fyrir umhverfissálfræðinni.

Haustið 2004 bjuggum við konan mín í Þingholtunum í Reykjavík og fórum gjarnan í gönguferðir á kvöldin. Við þrömmuðum um hverja götuna af annarri og ræddum af miklum móð lífsins gagn og nauðsynjar. Eitt kvöldið þegar við erum í gönguferð og í hrókasamræðum, staldrar konan mín við á götuhorni einu í miðbænum, lítur í kringum sig og segir: „Hefurðu tekið eftir því að við endum alltaf hérna?“ „Neeeeeei, ég veit það ekki... er það?“

„Mhmm... jebbs.“

„En af hverju endum við alltaf hérna?“ heldur hún áfram.

„Öööhh ... ég veit það ekki.“

„Það er bara eitthvað við þennan stað sem er aðlaðandi, manni líður vel hérna, ertu ekki sammála því?“

„Jú.“

„Það er eitthvað með þessi gömlu hús, fjölbreytileikann. Eitthvað.“

Hvaða tilfinning fylgir götunni?

Það var þessi uppgötvun okkar skötuhjúanna á götuhorni í miðbæ Reykjavíkur sem ýtti boltanum af stað, þannig að úr varð aðgerðaráætlun sú sem ég minntist á í síðasta pistli, og tekur m.a. til þess því hvernig auka má vitund fólks á umhverfi sínu og áhrifum umhverfis á andlega, líkamlega og félagslega líðan.

Í aðgerðaráætluninni felst einn liðurinn í því að fara með umhverfissálfræði inn í skólana, vekja athygli ungs fólks á þessum fræðum. Þess vegna hef ég kynnt umhverfissálfræði á öllum skólastigum, þ.e. frá leikskólastigi yfir á háskólastig, þó í misjafnlega miklum mæli.

Mest púður hefur farið í kennslu á háskólastigi og í þeim námskeiðum sem ég kenni þar, er fyrsta verkefnið alltaf það sama. Ég bið nemendur að taka myndir af götum sem þeim finnst flottar, götum sem þeim finnst allt-í-lagi og götum sem þeim finnst ljótar.

Það er alltaf jafn gaman hvað mörgum nemendum finnst áhugavert að leysa þetta litla verkefni. Nær undantekningarlaust segja nemendur að verkefnið opni nýja sýn, þetta sé eitthvað sem þeir hafi ekki pælt í áður. Þeir hafi ekki veitt því athygli hversu fjölbreyttar götur í raun eru og hvað götur geta haft ólík áhrif á upplifun og líðan.

Þannig lýsti einn nemendahópur eitt sinn upplifun sinni í fallegri götu með þeim hætti að umhverfið hefði jákvæð áhrif á öryggistilfinningu, forvitni og gleði.

Annar hópur sagðist hafa upplifað köfnunartilfinningu í þröngri götu, þar sem háar, gráar byggingar voru til sitthvorrar handar.

Aftur, þessi dæmi sýna okkur að oft áttum við okkur ekki á áhrifum umhverfisins fyrr en við förum að velta hlutunum fyrir okkur. Við finnum fyrir einhverjum áhrifum, andlegum, líkamlegum, en tengjum ekki hlutina saman.

En svo þegar við vöknum til vitundar um áhrif umhverfisins, þá höfum við oft sterkar skoðanir á umhverfi okkar og því samspili sem er í gangi milli okkar og umhverfisins.

Hreyfing utandyra og áhrif náttúru

Til dæmis ef við leitumst eftir að upplifa frið og ró, „hlaða batteríin“, þá er náttúran oft nærri í hugskoti okkar, við sjáum fyrir okkur sólarlag, litlar öldur sem brotna í flæðarmálinu, fallegan gróður, lítinn læk sem skoppar milli steina, og ef við höfum möguleika þá förum við gjarnan út og upplifum náttúruna milliliðalaust. Margir sækja sér kraft og styrk í náttúrunni, en fáir fara í Kringluna í þeim sömu erindagjörðum. Hressingarganga niður Laugaveg hljómar allt öðruvísi en hressingarganga í Síðumúla. Þegar við förum á veitingahús, þá svipumst við oftar en ekki eftir lítt áberandi stað, helst upp við vegg eða inn í notalegu skoti. Þegar við sýnum erlendum gestum landið okkar, veljum við staðina vandlega, förum á Þingvelli eða að Skógarfossi. Flest okkar taka meðvitaða ákvörðun um hvaða myndir eiga skreyta veggi heimilisins og hvers konar stólar eiga að vera kringum eldhúsborðið.

En taktu eftir, þetta á við þegar við beinum sjónum okkar að áhrifum umhverfisins með meðvituðum hætti, þegar við hugum að samspili okkar og umhverfisins.

Á covid-tímum hefur mikið verið rætt um mikilvægi hreyfingar fyrir andlega og líkamlega líðan okkar. Margir tengja hreyfingu við virkni utandyra.

Í árferði eins og nú, þegar við erum öll hvött til þess að vera sem mest heima og ferðafrelsið er takmarkað, kemur berlega í ljós hversu mikilvægt nærumhverfi okkar er í því samhengi sem hér um ræðir.

Mig langar því til að varpa fram eftirfarandi: Hversu vel þekkir þú nærumhverfi þitt, þitt næsta nágrenni? Hvar í þínu nærumhverfi er að finna stað eða staði sem vekja upp öryggistilfinningu, forvitni og gleði? Af hverju hafa þessir staðir þessi áhrif? En hvar í þínu nærumhverfi er að finna stað eða staði sem hafa neikvæð áhrif á þig? Hvað einkennir slíkt umhverfi?

Rannsóknir sýna að umhverfið getur verið mikill hvati þegar kemur að hreyfingu utandyra. Þannig er líklegra að gott og uppbyggilegt umhverfi ýti undir virkni og hreyfingu utandyra en óhagstætt og niðurdrepandi umhverfi letji.

Mig langar því til að leggja hér inn svipað verkefni og ég legg fyrir nemendur mína , þ.e. að fara út og taka myndir í nágrenni heimilis þíns. Veldu umhverfi sem þér finnst flott, allt-í-lagi og ljótt og veltu fyrir þér hvað mótar viðhorf þín.

Ég er sannfærður um að það kemur eitthvað áhugavert út úr í þessari litlu könnun.

-----

Hlusta má á pistil Páls í spilaranum hér að ofan.

Hér má nálgast fyrri pistil Páls.