Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Þórdís fordæmir aðgerðir lögreglu

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Þór­dís Björk Sig­urþórs­dótt­ir, íbúi í Hafnar­firði, fordæmir að lögregla hafi gengið á 16 ára stúlku og innt hana svara um fjölda gesta á heimili þar sem hún var gestkomandi. Lögregla kom á heimili Þórdísar á föstudagskvöld vegna gruns um brot á samkomutakmörkunum.

Rætt var við Þórdísi í Síðdegisútvarpi Rásar 2 í dag.

Sonur Þórdísar er nemandi við Verzlunarskólann og fékk að hennar sögn að bjóða átta samnemendum sínum heim til sín vegna stafrænnar kvöldvöku, sem hófst hálf níu um kvöldið og lauk tveimur tímum síðar. Einhverjir gesta sonar hennar hafi á þessu tímabili farið af heimilinu en nýir komið í staðinn. Þórdís kom heim klukkan ellefu en faðir drengsins hafði verið heima allt kvöldið.

Ég er að taka til og ganga frá, krakkarnir eru svona að tygja sig út en þá sé ég lögreglubíl og tveir lögreglumenn koma og banka upp á. Þeir vildu fá að vita hvað ég héti og gæfi upp kennitölu og nafn. Ég sagði að ég vildi ekki gera það, enda skil ég ekki að lögregla geti bara komið heim til þín og krafist þess að þú gefir henni upp nafn og kennitölu. Þar fyrir utan geta þeir alveg komist að því hver býr í húsinu sem þeir eru að banka upp á.

Því næst inntu lögregluþjónarnir hana eftir því hve margir væru í húsinu og hún hafi svarað að allt væri innan leyfilegra marka. Þá hafi þeir farið fram á að fá að fara inn á heimilið til að telja fjöldann þar sem það væri alltaf verið að ljúga að þeim.

Þórdís segir í samtali við Síðdegisútvarpið að hún hafi óskað eftir skýrslu lögreglu um málið í dag og upptökum úr búkmyndavélum sem lögreglan sagði í tilkynningu vegna málsins vera meðal þess sem sannaði að meðalhófs hefði verið gætt við aðgerðirnar. Hún hafi fengið þau svör að til þess að fá gögn vegna málsins í hendurnar þyrfti hún að vera með lögfræðing.

Ég tel það ekki rétt. Ég á rétt á þessum gögnum, þetta eru opinber gögn og snúa að mér en það mun allt koma í ljós, mér sýnist þetta enda í hugsanlegum málaferlum.

Í yfirlýsingu lögreglunnar vegna málsins sagði að húsráðandi hafi verið lítt samvinnuþýður og hreytt fúkyrðum í lögreglumenn á vettvangi.

Ég fer ekki að hleypa lögreglunni inn á mitt heimili nema þeir séu með einhvers konar úrskurð sem leyfi þeim það. Það má vel vera að ég sé ósamvinnuþýð enda kæri ég mig ekkert um svona heimsóknir. Þá er varðstjórinn kallaður til auk annars lögreglumanns. Ég stíg út því ég kærði mig ekki um að krakkarnir heyrðu þessi samskipti.

Að sögn Þórdísar stillti varðstjórinn sér upp fyrir framan húsdyrnar til að meina henni inngöngu aftur á heimili sitt. Hún segir að hún hafi komið við öxl lögregluþjónsins og farið þess á leit við hann að fá að komast aftur inn í húsið. Hann hafi þá svarað háum rómi: „Ekki leggja hendur á mig“. Varðstjórinn hafi einnig gægst inn og segir hún hann hafa verið að reyna að telja fjölda ungmenna í húsinu inn um gluggann hjá henni.

Stöðvuðu 16 ára stelpu

Að endingu fékk Þórdís að fara aftur inn og sækja skilríki líkt og lögreglan bað hana um. Þá hafi varðstjórinn sagt henni að hún eigi „að segja rétt og satt frá og eigi rétt á lögmanni á öllum stigum málsins. Svo sagði hann mér að reka krakkana út og það gerði ég ekki.“ 

Þórdís segir að tveir lögreglubílar hafi verið fyrir utan húsið í drykklanga stund og lögregluþjónar stöðvað för stúlku sem var gestkomandi hjá henni og spurt hana út í hve margir hefðu verið komnir þar saman.

Ég fordæmi það, að lögreglan sé að draga þessa 16 ára stúlku inn í málið, það erum við foreldrarnir og húsráðendur sem berum ábyrgð á þessari heimsókn. Ef þeir telja að þarna hafi verið fleiri þá ber þeim bara að sanna það.

Hlusta má á viðtalið við Þórdísi í Síðdegisútvarpi Rásar 2 í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV