Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segir bólusetningu „lykilinn út úr faraldrinum“

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir nauðsynlegt að fram fari umræða um bóluefnin sem eru væntanleg við COVID-19 og bólusetningar. Þegar skoðaðar séu upplýsingar um bólusetningar hjá tugþúsundum manna og þær bornar saman við afleiðingar af COVID-19 þá sé áhættan „við að fá bóluefni margfallt minni en að fá COVID-19.“

Þetta var meðal þess sem kom fram á upplýsingafundi almannavarna í morgun. Nú hefur verið greint frá niðurstöðum þriggja lyfjaframleiðenda; Pfizer, Moderna og AstraZeneca. Tölur um það síðastnefnda komu í morgun, virkni þess reyndist vera 70 prósent. 

Þórólfur viðurkenndi að hann hefði viljað sjá hærri tölu en það þyrfti líka að skoða hvort virknin væri mismunandi á milli hópa. Hugsanlegt væri að nota þyrfti mismunandi bóluefni. Hann benti á að ef bóluefni AstraZeneca yrði notað hér á landi þyrfti að bólusetja alla þjóðina til að ná fram hjarðónæmi. 

Þórólfur sagði það skipta miklu máli hvernig bóluefnin væru kynnt. Ekki hefði verið greint frá miklum aukaverkunum hjá bæði Pfizer og Moderna og alvarlegar aukaverkanir af bóluefnum væru mjög fátíðar „kannski ein af nokkrum hundrað þúsund bólusetningum.“  Hann sagði ekki hægt að bera þessi bóluefni saman við bóluefnið sem kom við heimsfaraldrinum 2009 og það kæmi sér á óvart að heyra niðurstöðu skoðanakönnunar frá Svíþjóð um að þrír af hverjum fjórum Svíum ætluðu ekki að láta bólusetja sig.  „

Ef það fer að koma upp að menn telja þessi bóluefni stórhættuleg þá verða menn að skoða afleiðingar af þeim og svo afleiðingar af sjúkdómum. Við höfum upplýsingar um bólusetningar hjá tug þúsundum og þegar við berum þær saman við afleiðingar sjúkdómsins þá er áhættan við bólusetningu margfalt minni en að fá að COVID-19.“

Hann sagði bólusetningu algjöran lykil að því að koma okkur út úr þessum faraldri og að hér gæti farið að hefjast eðlilegt líf.  Hann áréttaði þó að ekkert væri fast í hendi, ekki væri vitað hvenær bóluefnin yrðu afhent, hversu mikið af því kæmi og hvenær mætti búast við fyrstu sendingu.  „Ég vil því ítreka að árangurinn af aðgerðum hefur verið mjög góður og áframhaldandi árangur mun standa og falla með því hvort fólk gætir vel að sér, hvort sem það eru harðar takmarkanir í gangi eða ekki.“

Már Kristjánsson, smitsjúkdómalæknir, bætti við að dánartíðnin af völdum veirunnar væri 2-3 prósent og hærri í sumum aldurshópum. Þetta væri því hættuleg veirusýking. „Og það er ýmislegt sem bendir til þess að hún hafi langtímaafleiðingar umfram það sem getur talist almennt. Atvinnulífið og samskipti munu því velta á bólusetningu.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV