
Lögreglan segist ekki hafa verið að guða á glugga
Í yfirlýsingu lögreglunnar er vitnað til fréttar mbl.is um málið. Þar er haft eftir húsráðanda að hann viti ekki hvernig lögreglan hafi fengið veður af því að gestir væru á heimilinu. Lögreglumennirnir hafi bankað upp á um klukkan 23:30.
Í tilkynningu lögreglu kemur fram að lögreglunni hafi borist tilkynningar um fjölmennt unglingasamkvæmi og að grunur hafi vaknað um hugsanlegt brot á reglu um fjöldasamkomu. Þegar lögreglumenn hafi komið á staðinn hafi þótti sýnt að þeir sem tilkynntu um samkomuna hafi haft eitthvað til síns máls.
Húsráðandi hafi ekki verið samvinnuþýður og hreytt fúkyrðum í lögreglumenn. Á meðan á því stóð hafi 20 ungmenni sést yfirgefa húsið, öll grímulaus. Lögreglan vísar því jafnframt á bug að lögreglumenn hafi verið gægjast inn um gluggann. Horft hafi verið inn um glugga á framhlið hússins til þess að telja ungmennin sem „verið var að koma út í gegnum dyr baka til.“
Lögreglan segir að þessar aðgerðir ættu ekki að koma óvart enda hafi sóttvarnalæknir ítrekað varað við því að fólk af mörgum heimilum safnaðist saman. Brot á sóttvarnareglum geti valdið ófyrirséðum afleiðingum. Lögreglan hafi gætt meðalhófs í aðgerðum sínum en meðal málsgagna séu upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna.