Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Kolmunnaveiði hafin við Færeyjar

23.11.2020 - 12:52
Mynd með færslu
Víkingur AK landar makríl á Vopanfirði Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Tæpur tugur íslenskra skipa er nú við kolmunnaveiðar austur af Færeyjum. Þetta verður verkefni uppsjávarflotans fram að jólum en löng sigling er á þessi mið og allra veðra von.

Rúm 70 þúsund tonn voru eftir af kolmunnakvóta Íslendinga þegar veiðum í færeysku lögsögunni lauk í byrjun júní. Útgerðirnar sneru sé þá að makrílveiðum en venjan er að skilja eftir kolmunna til haustsins. Og nú eru skipin aftur farin til veiða við Færeyjar.

Stóð alltaf til að veiða hluta kvótans í haust

„Þetta var svo sem alltaf planið að reyna að veiða hluta af þessu í haust. Þá er þetta betra hráefni, meira lýsi og að mörgu leiti betra fyrir okkur að gera þetta svona," Segir Baldur Marteinn Einarsson, útgerðastjóri Eskju. Auk þriggja skipa Eskju eru þrjú skip frá Síldarvinnslunni komin á kolmunnaveiðar og tvö skip Brims. Baldur telur að flestar útgerðir sem eiga kolmunnakvóta sendi skip á þessar slóðir næstu daga.

300 mílur frá heimahöfn

Hann segir að Eskja eigi eftir um sextán þúsund tonna kvóta sem endist þeim í tæpan mánuð. „Svona miðað við undanfarin ár þá fer alltaf töluverður tími í hvern túr vegna verðurs. Þannig að ég reikna með að við verðum fram til 20. desember, eitthvað svoleiðis. Við erum þarna einhverjar 300 mílur frá heimahöfn, en einhverjar 70-80 mílur inn til Færeyja.“
„Þannig að ykkur finnst skipta máli að eiga þetta inni núna þessar vikurnar?“
„Já, já, ef við hefðum ekki þetta þá hefðum við svosem ekkert annað. Þannig að þetta er bara mjög gott fyrir jól."