Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Hliðsjón höfð af umsögnum um Borgarlínu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sigurður Þórisson - RÚV
Umsagnir um Borgarlínu og breyttar ferðavenjur á höfuðborgasvæðinu sem bárust gegnum samráðsgátt voru að mestu jákvæðar. Til stendur að kynna drög að breytingum á aðalskipulagi Reykjavíkur og Kópavogs næsta vor.

Umsagnirnar voru alls átta talsins og verða hafðar til hliðsjónar í þeirri skipulagsvinnu sem fram undan er vegna vinnu við Borgarlínu að því er segir í samráðsgátt. Meðal þeirra sem sendu inn umsögn voru Landvernd, Landhelgisgæslan og Skipulagsstofnun.

Félag ábyrgra hundaeigenda og Hundaræktendafélag Íslands sendu sömuleiðis inn umsagnir ásamt tveimur hundaeigendum. Þau lýstu þar áhyggjum sínum af áhrifum Borgarlínu á útivistarsvæðið að Geirsnefi og hvetja aðstandendur verkefnisins til að hafa hagsmuni þeirra í huga við áframhaldandi vinnu vegna verksins.

Fram kemur í umsögn Landverndar að mikilvægt sé gæta eftir fremsta megni að því að lífríki á svæðinu sé ekki raskað, einkum við Elliðaár og í Vatnsmýri. Landhelgisgæslan leggur áherslu á að við frekari ákvarðanir um legu Borgarlínu sé haft samráð við stofnunina og Skipulagsstofnun að leitast verði við að upplýsa íbúa og aðra á áhrifasvæði verkefnisins um stöðu þess á öllum tímum.