Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Fleiri áfangastaðir og fleiri ferðir yfir hátíðarnar

23.11.2020 - 16:00
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Icelandair stefnir að því að fjölga áfangastöðum og flugferðum yfir hátíðarnar og verður lagt kapp á að koma farþegum á áfangastaði fyrir jól og áramót. Jólaáætlun félagsins er nú komin í sölu og er áætlað að fljúga til og frá ellefu áfangastöðum.

Brottfarir á vegum Icelandair hafa verið allt niður í ein á dag undanfarnar vikur og verður um talsverða aukningu að ræða.

Í tilkynningu frá Icelandair segir að margir Íslendingar sem búi erlendis kjósi að koma heim fyrir hátíðarnar. Sóttvarnayfirvöld hafa mælst til þess, í ljósi fyrirkomulags sóttvarna á landamærunum, að fólk komi heim í síðasta lagi 18. desember til að eiga möguleika á að vera laus úr sóttkví á aðfangadag.

Í Evrópu stefnir félagið að því að fljúga til og frá Kaupmannahöfn, Osló, Stokkhólmi, Amsterdam, London, París, Frankfurt og Berlín. Í Norður Ameríku stefnir félagið á flug til og frá Boston, New York og Seattle, að því er segir í tilkynningunni.

 

Félagið áformar að fljúga til 22 áfangastaða í Evrópu og tíu í Norður Ameríku næsta sumar og gert er ráð fyrir að heildarsætaframboð verði um 25-30% minna en síðasta sumar. Tenerife verður nýr áfangastaður Icelandair, en að öðru leyti verður lögð áhersla á lykiláfangastaði félagsins.