Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Stíf hagræðingarkrafa á Landspítala kemur á óvart

22.11.2020 - 21:01
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis og þingmaður Samfylkingarinnar segir að stíf hagræðingarkrafa á Landspítala komi á óvart. Landspítalinn stendur að óbreyttu frammi fyrir fjögurra komma þriggja milljarða hagræðingarkröfu á næsta ári og hefur óskað eftir því við heilbrigðisráðuneytið að fá að að fá að vinna hallann upp á þremur árum. Jafnvel þannig er ljóst að þjónusta við sjúklinga á eftir að skerðast,  segir í fjárhagsáætlun sem spítalinn hefur skilað ráðuneytinu.

„Þetta kallar maður bara að pissa í skóinn sinn sko. Ég átta mig á því að við þurfum að draga saman seglin en ég held að vanfjármagnað heilbrigðiskerfi sem var vanfjármagnað fyrir COVID, hafi ekki efni á því að fara að draga mikið saman,“ segir Helga Vala.

Ef heilbrigðisráðherra, sem á eftir að funda með Landspítala um stöðuna, samþykkir að dreifa hallanum á þrjú ár þýðir það 1,4 milljarða króna hagræðingarkrafa á ári næstu þrjú ár. Til að ná því þarf til dæmis að fresta framkvæmdum á húsnæði spítalans, sem hefur verið talað um að sé barns síns tíma, síðast í skýrslu stjórnenda spítalans um hópsmitið á Landakoti, þar sem segir að húsakosturinn sé beinlínis ófullnægjandi. „Ég sé það núna að hluti af hagræðingu á að fara í það að seinka framkvæmdum við bygginguna sem leiðir til þess að ónýtt húsnæði verður áfram notað.“

Hvað vilt þú sjá gert? „Ég vil sjá að það verði gefinn meiri slaki, að ríkisstjórnin fjármagni heilbrigðiskerfið eins og þarf að gera, eins og er verið að gera í löndunum í kringum okkur. Þetta snýst allt um forgangsröðun.“