Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Staðan á Landspítalanum fer sífellt batnandi

22.11.2020 - 13:51
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Alls liggja 49 á Landspítalanum eftir að hafa smitast af COVID-19. Að minnsta kosti fjórir hafa verið útskrifaðir um helgina og einn verið lagður inn. Tveir eru á gjörgæslu. Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild, segir að staðan á spítalanum fari batnandi.

Rúmur tugur þeirra sem liggja inni er í einangrun eins og staðan er núna en hinir eru ýmist að jafna sig eftir sýkingu eða voru á spítalanum fyrir vegna annarra veikinda. 

„Staðan er mjög batnandi, enda endurspeglar hún í rauninni það sem er að gerast í samfélaginu, bara aðeins eftir á,“ segir Már. Hann segir það muna miklu að mun færri starfsmenn spítalans séu í sóttkví en áður. 

Samkvæmt upplýsingum frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur talan yfir fjölda þeirra sem liggja inni sem er gefin upp á covid.is ekki verið uppfærð um helgina. Már útskýrir að sú tala nái ekki aðeins yfir þá sem hafa virkt smit heldur líka þá sem lágu inni vegna annarra veikinda þegar þeir greindust með COVID-19, eins og sjúklinga á Landakoti, og þá sem eru enn að ná sér eftir sýkingu.