Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Sjópróf er rannsókn en ekki dómur

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Sjópróf vegna kórónuveirusmits um borð í togaranum Júlíusi Geirmundssyni fer fram á morgun. Með sjóprófinu er í raun gerð tvöföld rannsókn á því sem gerðist.

Sjóprófið fer fram fyrir Héraðsdómi Vestfjarða og hefst klukkan níu  í fyrramálið. Nokkur stéttarfélög fara fram á sjóprófið en aðrir málsaðilar eru útgerð Júlíusar Geirmundssonar og skipstjóri. Tilgangurinn með sjóprófi er að reyna að leiða í ljós orsakir viðkomandi atburðar og þær staðreyndir sem skipta máli. Þeir sem geta farið fram á sjópróf eru eigandi, útgerðarmaður, leigutaki, skipstjóri, farmeigandi, vátryggjandi, lögreglustjóri, yfirvélstjóri, meiri hluti áhafnar og stéttarfélög.   

Sem kunnugt er veiktist meiri hluti áhafnar Júlíusar Geirmundssonar af COVID-19 í veiðiferð skipsins í síðasta mánuði en veiðum var haldið áfram í stað þess að sigla til hafnar. Lögreglurannsókn vegna málsins er á lokametrunum, að sögn Karls Inga Vilbergssonar lögreglustjóra á Vestfjörðum.

Sjópróf voru mun algengari á árum áður, en að sögn sérfróðra manna eru þau barn síns tíma og leifar frá rannsóknarréttarfari þegar dómarar rannsökuðu mál í sakamálum. Áður voru til sérdómstólar eins og sjó- og verslunardómur og siglingadómur, sem hafa verið lagðir niður. Með því að halda sjópróf eru því í raun tvær rannsóknir í gangi, sjópróf og lögreglurannsókn.

Að sögn Bergvins Eyþórssonar varaformanns Verkalýðsfélags Vestfirðinga var ákveðið að fara þessa leið því í sjóprófi séu sérfræðingar í sjórétti og vinnu á sjó kallaðir til sem meðdómendur. Horft sé til þess að sjóprófin leiði í ljós hver beri ábyrgð þannig að fyrir liggi hvert eigi að sækja bætur komi í ljós að skipverjar hafi beðið varanlegan skaða. Aðstæður hafi verið mjög sérstakar. Að sögn Bergvins verða fimmtán skipverjar kallaðir til sem vitni sem og sóttvarnalæknir Vestfjarða. Skipstjórinn á Júlíusi Geirmundssyni hefur kallað sjóprófin sýndarréttarhöld sem hann taki ekki þátt í. Honum er engu að síður skylt að mæta en þar sem hann hefur stöðu sakbornings í lögreglurannsókninni þarf hann ekki að tjá sig við sjóprófið.

Með sjóprófi er ekki kveðinn upp dómur, heldur er hann rannsókn og niðurstaða hans síðan send lögreglustjóra og ríkissaksóknara, Samgöngustofu og Rannsóknarnefnd samgönguslysa.