Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Segir yngra fólk fara síður eftir takmörkunum í Svíþjóð

22.11.2020 - 13:16
Björn Zoega, forstjóri Karolinska. - Mynd: skjáskot af vef SVT / skjáskot af vef SVT
Björn Zoega, forstjóri Karolínska sjúkrahússins í Svíþjóð segir að staða faraldursins í Svíþjóð sé á margan hátt erfið. Meira sé þó vitað um veiruna en í fyrstu bylgju faraldursins. Farið sé að bera á farsóttarþreytu þar eins og annarsstaðar og yngra fólk eigi erfitt með að fara eftir takmörkunum.

Rætt var við Björn í Silfrinu í morgun. Harðari aðgerðir hafa verið boðaðar í Svíþjóð nú en í fyrstu bylgju faraldusins. Björn segir stöðuna vera misjafna á milli svæða innan landsins. Töluverðar takmarkanir hafi verið í landinu allt frá upphafi, en höfðað hafi verið til samvisku fólks frekar en að loka og banna.

„Þegar menn sjá að þetta fer af stað aftur, menn sjá það bara á tölum að yngri kynslóðin sérstaklega hefur verið miklu kærulausari að þá er hert á þessu. ÞAð var nú þannig í fyrstu bylgju að það voru takmarkanir, kannski komu þær of seint inn en þarna voru talsverðar takmarkanir og þær virkuðu mjög hratt þegar þær komu inn. Núna getum við séð að fólk er orðið eins og allstaðar annarsstaðar mjög þreytt á þessum takmörkunum og erfitt með að skilja samhengið í þessu, þá verða menn að grípa fastar inn í.“  segir Björn.

Hann segir að helsti lærdómurinn sem svíar drógu af fyrstu bylgjunni hafa verið að vernda viðkvæmda hópa og skýra verklag.

„Þeir voru of seinir að loka hjúkrunarheimilunum og starfsmenn höfðu ekki neitt til að vinna eftir þar, inni á hjúkrunarheimilunum. Þetta er svo misskipt hver ber ábyrgð á hjúkrunarheimilunum, það er borgin eða kommúnurnar, síðan eru það lénin sem bera ábyrgð á spítulunum og ríkisstjórnin sem ber ábyrgð á stefnumótuninni og tilmælunum. Þetta gekk hægt.“ segir Björn.

Sýnataka hafi ekki gengið nógu vel og vantað hafi upp á hana. Rakning smita hafi verið illmöguleg þar sem veiran dreifðist mjög mikið og hratt.  Staðan á Karólínska spítalanum segir hann að sé fín.

„Í fyrstu bylgjunni þá var þetta verðugt verkefni, þá vorum við með yfir 600 COVID sjúklinga inniliggjandi af 12 hundruð plássum sem við höfum. Við fimmfölduðum gjörgæsluna á nokkrum dögum. Núna erum við búin að tvöfalda gjörgæsluna og erum með inniliggjandi 170 sjúklinga sem er töluvert minna, en ég býst við að á næstu tveimur vikum munum við hjálpa til á öðrum spítölum og   á minni lénum sem eru nálægt okkur og eru komin í ákveðin vanræði.“ segir Björn. 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV