Segir mögulega lagasetningu á verkfall mál löggjafans

22.11.2020 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Boðað hefur verið til samningafundar í kjaradeilu ríkisins og flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni. Formaður flugvirkjafélagsins segir hlutverk þeirra að ná samningum og það sé ekki í þeirra höndum ef löggjafinn telur þörf á lagasetningu.

Flugvirkjar hjá Landhelgisgæslu Íslands hafa verið í verkfalli frá fimmta nóvember. Fram hefur komið ásteytingarsteinninn sé ekki launaliðurinn, heldur tenging samings flugvirkja Landhelgisgæslunnar við samning flugvirkja Icelandair.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagði í fréttum fyrir helgi að hún teldi þá tengingu óeðlilega. Hún sagði til skoðunar að setja lög á verkfall flugvirkjanna til að tryggja öryggi almennings og sjófarenda. Þá sagði Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar í síðustu viku að þyrluflotinn gæti stöðvast um miðja þessa viku, eða jafnvel fyrr.

Ríkissáttasemjari hefur boðað deilendur til samningafundar fyrir hádegi á morgun. Guðmundur Úlfar Jónsson formaður Flugvirkjafélags Íslands segir í skriflegu svari til fréttastofunnar nú fyrir hádegið að hvað hugsanlega lagasetningu varðaði, þá sé það hlutverk félagsins að endurnýja kjarasamning fyrir félagsmenn sína og það sé svo sannarlega reiðubúið til þess. Ef löggjafinn telji þurfa eitthvað annað, þá sé það úr þeirra höndum.