Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Mér fannst það mjög kuldalegt og nöturlegt“

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Það var bæði nöturlegt og kuldalegt að sjá fólk læst inni í einangrun í Arnarholti, segir fyrrverandi starfsmaður þar. Hún segir að málefni heimilisins brenni enn þann dag í dag á þeim starfsmönnum sem þar unnu. Þeir hafi reynt að vekja athygli á slæmum aðbúnaði á heimilinu á sínum tíma, án árangurs.

Starfsfólk á vistheimilinu Arnarholti lýsti ómannúðlegri meðferð á heimilisfólki í ítarlegum vitnaleiðslum fyrir tæpri hálfri öld. Greint hefur verið frá því sem fram kom í vitnaleiðslunum í fréttum að undanförnu.

Kolbrún Jónsdóttir vann í Arnarholti með hléum frá 1966 til 1971. Hún var 16 ára þegar hún hóf störf þar fyrst. Kolbrún er hjúkrunarfræðingur og hefur alla tíð unnið sem geðhjúkrunarfræðingur. Hún var ein af þeim sem störfuðu í Arnarholti og voru kölluð í vitnaleiðslurnar um aðbúnaðinn þar árið 1971. Kolbrún vann í eldhúsinu, kom ekki nálægt hjúkrun og gat því ekki greint frá mörgu um slæman aðbúnað. Hún segist þó hafa upplifað ýmislegt neikvætt á heimilinu, til dæmis notkun einangrunarklefans, eða sellunnar, þar sem fólk var látið dúsa dögum eða jafnvel vikum saman.

„Og það er einna erfiðast af því sem ég man eftir að hafa séð, þegar maður sá að fólk var geymt þarna inni,“ segir Kolbrún. „Og ég gat ekki séð að þeir sem væru með geðsjúkdóma, eða önnur hegðunarvandamál, að það leysti vandamálið að læsa fólk inni og skilja það eftir eitt, liggjandi á bekk. Mér fannst það mjög kuldalegt og nöturlegt.“

Kolbrún ákvað að eigin frumkvæði að færa fólki sem var í einangrun mat.

Var þá einhvers konar lúga sem hægt var að setja matinn inn um?

„Já. Maður gat talað við einstaklinginn inn um lúgu.“

Samvæmt upplýsingum fréttastofu er nokkuð langt síðan sellan var rifin.

Ekki gleymt og grafið

Kolbrún segir að stjórnun á heimilinu hafi verið sérstök og að yfirhjúkrunarfræðingurinn hafi varla virt sumt starfsfólk viðlits.

„Hann var bara mjög þumbaralegur, ef ég segi hvernig mér leið þá. Og mín hugsun er þannig enn.“

Eftir að umfjöllunin um Arnarholt hófst hefur Kolbrún sett sig í samband við fólk sem vann þar á sínum tíma.

„Þetta brennur enn á fólki. Það hefur upplifað þetta sem illa meðferð á skjólstæðingunum.“

Kolbrún segir að þeir fyrrverandi starfsmenn sem hún hefur rætt við, hafi reynt að vekja athygli á slæmum aðbúnaði í Arnarholti, bæði 1971 og svo aftur 1984.

„Ég heyrði það hjá þeim báðum sem ég talaði við í dag, að þær voru ekki mjög vongóðar, fyrst það var ekkert gert á sínum tíma, að það skili neinu að það sé farið yfir þetta einu sinni enn. En samt kannski eru þær ánægðar með að þetta skuli ekki vera gleymt og grafið.“

Svona heilt yfir, hvað finnst þér um þessa umfjöllun og að það eigi mögulega að rannsaka aðbúnað hér og á öðrum stöðum?

„Mér finnst það mjög jákvætt, að það sé reynt að læra af reynslunni. En mér finnst ekki mega gleyma því að við stöndum í þeim sporum í dag að það er víða pottur brotinn í hjúkrun og umönnun við geðfatlaða,“ segir Kolbrún.

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV