John Snorri reynir aftur við K2

Mynd með færslu
 Mynd: Kári Schram - RÚV

John Snorri reynir aftur við K2

22.11.2020 - 10:00

Höfundar

John Snorri Sigurjónsson fjallgöngumaður ætlar að reyna að komast á topp K2 að vetrarlagi. Hann hætti við sambærilega tilraun í febrúar eftir að tveir leiðangursmenn hættu við.

Hann greinir frá þessu á Facebook síðu sinni. Hann segir að hann hafi fengið leyfi til að ganga á fjallið í ágúst, og að búnaður hans sé kominn í grunnbúðir fjallsins. Með í för verða tveir háfjallaburðarmenn, Muhammad Ali Sadpara sem sé þaulvanur og Sajid Ali sem sé yngsti maðurinn til að komast á K2 frá Pakistan.

Í febrúar ætlaði John Snorri að klífa fjallið að vetrarlagi en þurfti að falla frá þeim áformum eftir að tveir leiðangursmenn treystu sér ekki í leiðangurinn af persónulegum ástæðum. Til að takast ætlunarverkið þurfa menn að vera mjög vel á sig komnir líkamlega og andlega sagði John Snorri þá. 

K2 er næsthæsta fjall í heimi á eftir Everest fjalli. Það er á mörkum Pakistan og Kína í Karakoram-fjallgarðinum og er 8.611 metra hátt. Everest er 8.844 metrar á hæð til samanburðar. K2 er oft kallað Villta fjallið því það þykir svo erfitt að klífa það. Engum hefur tekist að klífa það að vetrarlagi. John Snorri kleif fjallið að sumarlagi árið 2017 og var þá fyrsti maðurinn í þrjú ár til að ná á topp þess. Um 300 manns hafa náð á topp K2, en um 80 hafa látist við tilraunina. 

Tengdar fréttir

Innlent

Klífa ekki K2 eftir að tveir heltust úr lestinni

Innlent

Segja að John Snorri hafi sett tvö heimsmet

Innlent

John Snorri á tind K3 í nótt

Innlent

John Snorri náði á topp K2