Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fékk heiðursverðlaun fyrir vel unnin störf

Mynd með færslu
 Mynd: Aftonbladet - RUV

Fékk heiðursverðlaun fyrir vel unnin störf

22.11.2020 - 20:53
Elísabet Gunnarsdóttir knattspyrnuþjálfari var í kvöld valin þjálfari ársins af sænska blaðinu Aftonbladet. Það var þó ekki allt sem hún vann því seinna um kvöldið fékk hún að vita að hún hafi unnið til heiðursverðlauna Aftonbladet fyrir sitt framlag til sænska kvennafótboltans. Þetta er í fyrsta sinn sem verðlaunin eru veitt.

Það var tilfinningaþrungið myndband sem Aftonbladet gerði í tilefni útnefningarinnar en meðal þeirra sem köstuðu kveðju á hana voru Pia Sundhage fyrrum þjálfari bandaríska landsliðsins og Margrét Lára Viðarsdóttir sem spilaði lengi vel undir stjórn Elísabetar. 

Sjá mátti að Elísabetu var brugðið að fá jafn þýðingarmikil verðlaun eftir að hafa fyrr um kvöldið unnið þjálfara ársins titilinn. Elísabet hefur, eins og kom fram fyrr í kvöld, þjálfað Kristianstad frá árinu 2009 og í fyrsta sinn tókst henni að koma liðinu í Meistaradeild Evrópu. Liðið endaði í þriðja sæti sem er besti árangur þess undir stjórn hennar. 

„Það var ekki til neinn betri aðili til að taka við þessum verðlaunum en þú, þetta er leið okkar og leikmannanna í deildinni að segja takk fyrir allt sem þú hefur gert,“ sagði þáttarstjórnandi Aftonbladet þegar hann tilkynnti Elísabetu hvað hún hefði unnið.

„Takk kærlega fyrir. Þessi tími hefur gert mikið fyrir mig og breytt miklu fyrir mig. Ég er farin að viðurkenna að ég er hálf-íslensk og hálf-sænsk, þegar ég kom hingað fyrst hélt ég að ég myndi vinna deildina með liðinu á fyrstu árunum. Núna hef ég orðið meira raunsær og skipulagðari,“ sagði Elísabet og hélt áfram.

„Ég hef orðið betri í skipulagi og taktík, eitthvað sem Svíar eru góðir, frá Íslandi tók ég meira með mér orkuna og öskraði full mikið fyrstu árin. Á seinni árum hef ég lært að þjálfa meira með heilanum en ekki öskrunum.“