Fann föður sinn aftur fyrir ótrúlega tilviljun

Mynd: RÚV / RÚV

Fann föður sinn aftur fyrir ótrúlega tilviljun

22.11.2020 - 12:10

Höfundar

„Ég hélt að maðurinn hefði dáið,“ segir Alba Hough vínfræðingur sem kynntist föður sínum aftur eftir margra ára leit sem hún hafði gefist upp á. Hún var að spila Facebook-leik til að komast að því hvaða ofurhetja hún væri þegar hún rak augun í erlenda konu með kunnuglegt nafn. Konan reyndist vera systir hennar.

Alba Hough er vínfræðingur sem er fædd í Singapúr. Þar bjó hún til fimm ára aldurs með indverskri móður sinni og írskum föður sem var alinn upp í Ástralíu. Hún var sex ára þegar hún fluttist til Íslands árið 1988 með móður sinni sem giftist Íslendingi. Móðurfjölskylda hennar er í Síngapúr og föðurfjölskyldan í Ástralíu. „Ég er eina fíflið sem hangi hér en ég myndi ekki vilja vera annars staðar,“ segir Alba í Lagalistanum hjá Matthíasi Má Magnússyni á Rás 2. Hún rifjar meðal annars upp uppeldið, endurfundi hennar og föður hennar og merkileg skilaboð sem Shirley Manson, söngkona hljómsveitarinnar Garbage, skrifaði til hennar.

Brá að sjá engin tré á Íslandi

Hún man eftir því að vera sex ára á Íslandi í fyrsta sinn og bregða mikið því það voru svo fá tré sjáanleg. „Við erum frá trópískri eyju,“ segir hún. „Ég leit út um gluggann og sagði: Mamma, hvað er þetta?“ rifjar hún upp.

Það er Ölbu einnig minnisstætt að átta sig á því hve mikið mamma hennar skar sig úr hópi hérlendra kvenna verandi svört með afró. „Og svört kona með hvítt barn eykur tabúið. Það var spes upplifun.“ Til fjórtán ára aldurs bjó hún í Kleppsholti en þaðan flutti hún í miðbæinn þar sem hún býr með konunni sinni. „Síðan hef ég verið miðbæjarrotta fyrir allan peninginn.“

Hélt að pabbi hennar væri dáinn

Eftir komuna til Íslands missti hún sambandið við föður sinn að mestu og um tíma taldi hún hann hreinlega af, því hann hafði aldrei samband og það var sama hvernig hún leitaði, hún gat ekki fundið hann. „Ég fór í gegnum öll sendiráðin og fann hann hvergi. Hann vann sem verkfræðingur um alla Ástralíu og alla Asíu svo það var erfitt að negla niður hvar hann var,“ segir Alba. „Eftir ákveðinn tíma spái ég ekkert í þessu lengur, ég hélt bara að maðurinn hefði dáið.“

Rakst á kunnuglegt nafn og sendi örlagarík skilaboð

Alba komst svo á snoðir um föður sinn fyrir ótrúlega tilviljun. „Þetta var árið 2008 og ég var að koma heim af langri vakt og ég sest niður fyrir framan tölvuna,“ rifjar hún upp. Hún opnaði Facebook sem þá var tiltölulega nýr miðill. Þá var vinsælt að taka próf á forritinu til að komast að því hver maður væri í Spice Girls, hver væri liturinn manns og fleira. Alba ákvað að komast að því hvaða ofurhetja hún væri og komst að því að hún væri Batman.

„En í þá daga poppuðu alltaf nöfn random fólks í heiminum upp sem hefðu tekið sama sama próf,“ segir Alba. Venjulega gaf hún þeim hópi engan gaum en hún rakst á nafn sem hún kannaðist heldur betur við. Hún sendi skilaboð.

Sæl, Alba heiti ég. Þetta er ótrúlega fyndið en ekki vill svo til að þetta sé pabbi þinn?

Hafði ekki séð hann síðan hún var fimm ára

„Það kemur í ljós að þessi manneskja er systir mín,“ segir Alba. „Þetta gæti ekki verið meiri tilviljun.“ Systirin lofar að pabbinn hafi samband sem hann gerir. „Þú getur rétt ímyndað þér allt sem því fylgir. Ég er í einhverju sjokki, fer og segi mömmu og hún flippar úr hamingju.“

Alba fór fljótlega eftir þetta í heimsókn til föður síns og það var sérstök reynsla. „Ég hafði ekki séð manninn síðan ég var fimm ára og hafði ekki heyrt eða fengið bréf síðan ég var tíu ára,“ segir Alba. Hún dvelur hjá honum og konunni hans sem tók á móti henni með orðunum: „Enn eitt barnið. Komdu elskan,“ segir Alba og hlær.

Það kemur í ljós að faðir hennar á tíu börn og Alba segir að endurfundirnir hafi verið góðir. „Ég og nokkrar systur mínar erum þéttur hópur. Ein hefur komið hingað og við förum fram og til baka. Þetta er stórkostlegt,“ segir hún.

Alba segist geta hugsað sér að flytja til Ástralíu en konunni hennar líst alls ekki á þau plön. „Mér skilst á henni að þarna búi allt sem er hættulegt í heiminum og allt sé eitraðra,“ segir Alba.

Mynd með færslu
 Mynd: Alba Hough - Aðsend
Alba með móður sinni

Brá þegar hún komst að því að fólk borðar blóðmör

Móðir Ölbu er kokkur og eldar hún suðaustur-asískan mat af mikilli list. Barnæska Ölbu einkenndist mikið af langdvölum í elhúsinu með móður sinni sem kenndi Ölbu að nota skynfærin í eldhúsinu. „Hún getur verið svo mikil skepna,“ segir Alba kímin. „Henni fannst mikilvægt að ég vissi um hvað ég væri að tala varðandi hráefni og svona og við lékum oft leik sem gengur út á að ég loka augunum og hún er með hráefni í höndunum. Ég mátti þefa eða smakka til að segja hvað það væri.“

Stundum var svarið súkkulaði og þá átti Alba til dæmis að segja hvort það væri dökkt eða ljóst. „En stundum var það lime eða chilli og það var fyndið því afleiðingarnar voru miklar og erfiðar í svona korter á eftir.“ Þessi hæfileiki til að greina lykt og bragð hefur nýst Ölbu ótrúlega vel í námi og starfi sem vínfræðingur. „Lyktarskynið er algjör grundvöllur svo þetta hjálpaði fullt.“

Henni var aðeins brugðið þegar hún fór að kynnast íslenskum mat. „Í fyrsta sinn sem ég smakkaði blóðmör fékk ég taugaáfall,“ segir hún. „Ég var sjö ára, horfði í kringum mig og skildi bara ekki hvað væri að gerast.“ Í dag er íslenskur matur stundum á boðstólum á heimili móður hennar og hann borðaður með bestu list. „Mamma er forfallinn skötuaðdáandi, það er nóg til að gera okkur geðveik.“

Dregin upp á svið með Van McCoy

Á æskuheimilinu var mikið hlustað á diskó enda er móðir Ölbu forfallinn diskóaðdáandi. „Eitt af fyrstu lögunum sem ég dansa við þegar ég ryksuga átta ára er The Hustle með Van McCoy.“ Lagið er reyndar í sérstöku uppáhaldi hjá móður hennar því þegar hún fór á tónleika sem unglingsstúlka með bandinu í Singapúr var hún dregin upp á svið þegar lagið var spilað. „Hún var spottuð úti á gólfi með afró eins og míkrófón og er bara dregin upp á svið,“ segir Alba. „Það var aldrei friður á heimilinu fyrir þessu lagi.“

Var lofað 5000 krónum fyrir eiginhandaráritun frá Shirley Manson

Alba hefur líka haft skemmtileg kynni af fræga fólkinu. Hún var forfallinn aðdáandi hljómsveitarinnar Garbage, ekki síst því hún var skotin í Shirley Manson. Þegar hljómsveitin kom til Íslands í tilefni af tíu ára afmæli FM957 árið 1999 var Alba starfsmaður á Pizza '67 sem var á meðal þeirra sem styrktu tónleikana. Þegar hún frétti að til stæði að hljómsveitin kæmi á staðinn og fengi sér að borða eitt kvöldið grátbað hún yfirmann sinn um að fá að taka vakt það kvöld.

Vinnufélagi hennar vissi hve spennt hún væri að hitta söngkonuna svo hann gerir við hana veðmál. „Ef þú getur farið og fengið eiginhandaráritun hjá henni gef ég þér 5000 kall,“ lofaði hann. En allir í hljómsveitinni létu sjá sig nema Shirley svo ekkert varð úr veðmálinu þann daginn. „Litla hjartað mitt molnaði á gólfið,“ segir Alba.

„Stend í röðinni með öllum lesbíum landsins“

Daginn eftir fær hún fregnir um að Shirley sé stödd í Japis á Laugarveginum að gefa eiginhandaráritanir. Alba þaut af stað til að fá eina slíka en var ekki með neitt til að árita nema 500 króna seðil. „Ég stend í röð með öllum lesbíum landsins og nötra með seðilinn í hendinni.“

Þegar röðin var komin að Ölbu áttaði hún sig strax á að draumadísin væri alveg jafn stórkostleg og hún hafði ímyndað sér, kurteis og brosmild. Alba réttir henni seðilinn og tókst að stama um að hún hefði gert veðmál. Hún þurfti ekki að útskýra meira. „Hún skrifaði eitthvað á seðilinn, setur á sig varalit og kyssir hann áður en hún lætur mig fá hann. Ég fraus og það leið næstum yfir mig.“ Þegar hún gekk í burt og leit á seðilinn sá hún hin fullkomnu skilaboð. „Dear Al. Thanks for last night. Love, Shirley,“ stóð á miðanum.

Elsku Al, takk fyrir nóttina.
Ást,
Shirley.

Þegar hún mætir í vinnuna daginn eftir og sýnir vinnufélaganum seðilinn segir hann: „Æ, þegiðu,“ en sveik hana ekki um 5000 kallinn. „Ég gat keypt mér nýja skó eftir þetta.“

Matthías Már Magnússon ræddi við Ölbu Hough í Lagalistanum á Rás 2.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Framhjáhald getur verið það besta sem kemur fyrir“

Tónlist

Fyrrverandi kærastinn hefur ekki tjáð sig um plötuna