Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Bodø/Glimt Noregsmeistarar þegar fimm leikir eru eftir

Mynd með færslu
 Mynd: RUV

Bodø/Glimt Noregsmeistarar þegar fimm leikir eru eftir

22.11.2020 - 21:12
Norska knattspyrnuliðið Bodø/Glimt vann úrvalsdeild Noregs í knattspyrnu með fáheyrðum yfirburðum í kvöld. Enn eru fimm leikir eftir í deildinni en liðið hefur stungið keppinauta sína af. Íslenski landsliðsmaðurinn Alfons Sampsted leikur með liðinu.

Þetta er í fyrsta sinn sem Bodø/Glimt vinnur norsku úrvalsdeildina og gerir það svo sannarlega með stæl. Liðið skorar að meðaltali tvö mörk í leik og hafa farið illa með þó nokkur lið í deildinni.

Í kvöld var liðið í heimsókn hjá Strömsgodset og komust 2-0 yfir snemma leiks. Valdimar Þór Ingimundarson fyrrum leikmaður Fylkis minnkaði muninn fyrir heimamenn en nær komust þeir ekki og Bodø/Glimt því norskir meistarar og út brutust mikil fagnaðarlæti.

Þegar fimm leikir eru eftir leiðir Bodø/Glimt deildina með 18 stigum sem gerir það að verkum að Molde, sem situr í öðru sæti, nær þeim ekki. Takist Bodø/Glimt að ná í samtals fimm stig úr síðustu fimm leikjunum bæta þeir stigamet Molde frá árinu 2014.