Bakslag í norrænni samvinnu

22.11.2020 - 12:15
Mynd: Norðurlandaráð / Norðurlandaráð
Öfugþróun hefur verið í norrænu samstarfi undanfarin ár. Forsætisráðherrar ríkjanna samþykktu í fyrra að Norðurlönd yrðu samofnasta og sjálfbærasta svæði veraldar, en kórónuveirufaraldurinn hefur leitt til þess að landamæri hafa verið lokuð og afturkippur hefur orðið í samstarfinu. Í stað þess að samstaða þjóðanna ykist hafa ríkisstjórnir brugðist við faraldrinum án nokkurs samráðs við önnur norræn ríki.

Ekki verið erfiðara að ferðast síðan 1952

Aldrei síðan vegabréfafrelsi var tekið upp 1952 hefur verið eins erfitt að ferðast á milli norrænu landann. Þannig sagði í fréttaskýringaþættinum Agenda í sænska ríkissjónvarpinu, sem fjallaði nýlega um erfiðleikana sem hafa fylgt heimsfaraldrinum í norrænu samstarfi. Það má með sanni segja að það hefur slegið harkalega í bakseglin.

Forseti Norðurlandaráðs sér ljósa punkta

Silja Dögg Gunnarsdóttir, forseti Norðurlandaráðs, orðar þetta diplómatískt og sér ljósa punkta. Hún segir að misbrestur hafi orðið á samstarfinu í viðbrögðum við COVID-faraldrinum. Lítið samráð hafi verið haft við lokun landamæra. Norrænu ríkin hafi þó unnið mjög vel saman að því að koma fólki til síns heima. Lokun landamæra hafi þó valdið miklum skaða og gert fólki erfitt fyrir sem sækir opinbera þjónustu eða vinnu yfir landamæri.

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin

Samofin samfélög

Silja Dögg segir að norrænu samfélögin mjög samofin. Það er raunar svo að í landamærahéruðum er víða erfitt að merkja að um tvö sjálfstæð ríki sé að ræða allt fram að lokun vegna COVID.

„Samofnusta og sjálfbærasta svæði heims"

Forsætisráðherrar norrænu ríkjanna samþykktu á fundi á Íslandi í fyrra að stefna bæri að því að Norðurlönd yrðu samofnasta og sjálfbærasta svæði veraldar en samlögun verður ekki með lokuð landamæri þar sem fólk getur ekki sótt vinnu, skóla eða þjónustu á milli ríkja. En markmiðin hafa ekki breyst, segir Tomas Blomqvist, ráðherra norrænnar samvinnu í finnsku ríkisstjórninni.

Við vinnum að samlöguninni á meðan við glímum við farsóttina en fyrst og fremst þegar krísan er á bak og burt.      

Tomas Blomqvist, ráðherra norrænnar samvinnu í finnsku ríkisstjórninni.

Fyrirmynd samstarfs sjálfstæðra ríkja

Norræn samvinna hefur í meir en 60 ár verið talin fyrirmynd samvinnu sjálfstæðra og fullvalda ríkja. Formlega hófst sú norræna samvinna sem við þekkjum nú á tímum með stofnun Norðurlandaráðs árið 1952. Ráðið er samstarfsvettvangur löggjafarþinga ríkjanna. Samstarf norrænna ríkja er þó talsvert eldra og eitt sinn voru þau eitt ríki, á milli 1397 og 1523.

Eitt ríki í Kalmarsambandinu

Það var í Kalmarsambandinu svokallaða þegar erfðir réðu því að Margrét Danadrottning varð einnig æðstráðandi í Noregi og Svíþjóð. Finnland heyrði til Svíþjóðar og Ísland var hluti Noregs. Raunar voru Færeyjar og Grænland það einnig. Norðmenn lögðu einnig Hjaltland og Orkneyjar til í púkkið en þær gengu Kalmarsambandinu úr greipum á 15. öld og urðu hluti Skotlands og síðar Bretlands við sameiningu Skotlands og Englands 1707. Kalmarsambandið liðaðist endanlega í sundur 1523 er Svíar tóku Gústaf Vasa til konungs. Danmörk og Noregur héldu áfram í konungssambandi og raunar voru héruð í sunnanverðri Svíþjóð áfram hluti Danmerkur, Skánn, Halland og Blekinge.

Friður í meir en 200 ár

Á næstu öldum háðu Danir og Svíar mörg stríð og bitust um að vera forysturíki á Norðurlöndum, en friður hefur ríkt á milli norrænu þjóðanna síðan 1814. Þá, við lok Napóleónsstyrjaldanna, fengu Svíar Noreg í sinn hlut, en Ísland, Færeyjar og Grænland voru áfram hluti Danmerkur. Finnland varð hluti Rússlands næstu hundrað árin. Þegar styrjöldum og erjum Dana og Svía lauk í byrjun 19. aldar var tími rómantísku stefnunnar runninn upp og í henni má finna upphaf skandínavismans svonefnda.

Upphaf norrænnar samvinnu

Skandínavisminn naut einkum fylgis menntaðrar borgarastéttar og byggði á menningarlegum og pólitískum rökum; hugmyndinni um skyldleika þjóðanna og óttanum við stærri nágranna, Þýskaland í suðri og Rússland í austri. Stefnan og hugmyndir um eitt norrænt ríki beið skipbrot þegar Norðmenn og Svíar létu vera að koma Dönum til hjálpar í stríði þeirra við Þjóðverja 1864. Engu að síður ákváðu ríkin að starfa saman og samræma löggjöf í nokkrum málaflokkum. Eftir fyrri heimsstyrjöld bættust Finnar og Íslendingar í hópinn auk þess sem samstarfið verður víðtækara. Ef til vill var merkasta samstarfið á sviði peningamála.

Norrænt myntbandalag

Danir og Svíar stofnuðu myntbandalag 1873, bæði löndin bundu mynt sína við gull og Norðmenn gengu í bandalagið tveimur árum síðar, lögðu niður spesíur og tóku upp krónu. Danir og Svíar létu ríkisdali lönd og leið og breyttu nafni gjaldmiðilsins í krónu sömuleiðis. Á Íslandi gaf Landsbankinn út íslenskar krónur 1876 og var hún bundin dönsku krónunni. Sama mynt gilti því á Norðurlöndum að Finnlandi undanskildu, það var hluti rússneska keisaradæmisins fram til 1918. Segja má að umrót fyrri heimsstyrjaldar hafi gengið af norræna myntbandalaginu dauðu þó að það hafi ekki verið lagt niður formlega fyrr en 1972.

Náin samvinna

Þrátt fyrir að myntbandalagið hafi farið út um þúfur og einnig hugmyndir um norrænt varnarbandalag eftir síðari heimsstyrjöldina er samvinna ríkjanna náin, löndin eru sameiginlegur vinnumarkaður og borgarar njóta í grundvallaratriðum sama réttar.

 

Norrænir forsætisráðherrar á fundi í Reykjavík í ágúst 2019
 Mynd: Sigurjón Ragnar-Norræna ráðh - Norden.org

Varnar- og öryggismál

Lengst af náði samstarfið ekki til varnar- og öryggismála en það hefur breyst á síðustu árum, ekki síst eftir að Torvald Stoltenberg skilaði - að beiðni utanríkisráðherra landanna - tillögum um framtíðarsamstarf á þeim sviðum. Það var árið 2009. Stoltenberg sagði að ekkert hinna norrænu landa væri nógu öflugt til að sjá eitt um eftirlit og öryggi í næsta nágrenni sínu, þess vegna yrðu þau að vinna saman.

Bjarnason-skýrslan

Þessu starfi hefur verið haldið áfram, og fyrir ári fólu norrænu utanríkisráðherrarnir Birni Bjarnasyni, fyrrverandi dómsmálaráðherra, að skrifa skýrslu í sama anda og þá sem Stoltenberg gerði fyrir rúmum áratug. Björn skilaði skýrslu sinni í júlí í ár.

Björn segir að vinnan hafi tekið mið af því að í nóvember 2009 var stofnað til norræns varnarsamstarfs, hins svokallaða NORDEFCO-samstarfs.

Í skipunarbréfinu var mælt fyrir um þrjú verkefni:

     að fjalla um hnattrænar loftslagsbreytingar;

     að fjalla um fjölþáttaógnir og netöryggi;

     að styrkja og bæta fjölþjóðasamstarf innan ramma alþjóðalaga. Björn Bjarnason skilaði skýrslu sinni fyrr á árinu, sem nú er nefnd Bjarnason-skýrslan.

Löndin eiga margt sameiginlegt

Löndin eiga margt sameiginlegt, söguna, menninguna, tungumálin og lífsviðhorf, sem eru um margt lík, sem og virðingu fyrir lýðræði, jafnrétti og mannréttindum. Þá ríkir í löndunum traust, félagslegt og samfélagslegt traust, sem Dagfinn Høybråten, fyrrverandi framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, segir norrænt gull. 

Norðurlönd eru efst þegar félagstraust er mælt. Þetta er gulls ígildi fyrir Norðurlöndin.

Án þessa trausts þyrftum við að búa við miklu meira skrifræði og eftirlit. 

Dagfinn Høybråten.

   

Ekki allt gull sem glóir

En ekki er allt gull sem glóir. Það byrjaði að reyna á opin landamæri á Norðurlöndum þegar mikill fjöldi flóttamanna og farandfólks frá Mið-Austurlöndum og Afríku streymdi norður á bóginn frá löndunum sunnar í Evrópu. Það þurfti að sýna skilríki við ferðir frá einu norrænu ríki til annars í fyrsta skipti síðan 1952. Átök glæpagengja kölluðu svo á herta landamæragæslu.

Lokuð landamæri í COVID-faraldrinum

Svo braust faraldurinn út og öll norrænu ríkin - nema Svíþjóð - skertu ferða- og komufrelsi. Tomas Blomqvist, ráðherra norrænnar samvinnu í Finnlandi, segir að ríkisstjórn landsins hafi verið nauðugur einn kostur að stöðva útbreiðslu kórónuveirunnar. Sjálfum hafi honum fallið þetta þungt en það hafi verið nauðsynlegt.

Alvarleg áhrif á Álandseyjum

Sænska sjónvarpið fjallaði nýlega um erfiðleikana sem hafa fylgt heimsfaraldrinum í norrænu samstarfi. Við skulum bregða okkur til Álandseyja, þær eru milli Svíþjóðar og Finnlands, heyra til Finnlands, en eyjarskeggjar, sem njóta verulegrar sjálfstjórnar, eru sænskumælandi. Óvíða hafa takmarkanir á ferðafrelsi í farsóttinni haft meiri áhrif því ferðir og ferðaþjónusta er alfa og omega í efnahagslífi Álandseyinga. Þaðan eru gerðar út ferjur Viking Line sem sigla á milli Stokkhólms og Helsinki og víðar á Eystrasalti. En nú er hún Snorrabúð stekkur.

Fredrik Karlström, atvinnumálaráðherra Álandseyja segir að Álandseyingar séu mjög háðir viðskiptum bæði til austurs og vesturs. Ferjureksturinn og ferðaþjónustan sé hjartað í atvinnulífi og samfélagi eyjanna.

 

Fredrik Karlström, atvinnumálaráðherra Álandseyja, í viðtali við SVT
 Mynd: SVT

Þegar landamærum er lokað breytast forsendurnar, það er ekki bara atvinnulífið sem er lokað niður, fótunum er kippt undan fólki sem býr hér og lifir á forsendum ferðafrelsis á Norðurlöndum.

Atvinnuleysi orðið vandamál

Um 30 þúsund manns búa á Álandseyjum og þar hefur verið almenn velmegun. Í byrjun þessa árs var atvinnuleysi 3,7 prósent, nú mælist það í tveggja stafa tölum. Jenny Björklund er veitingahúsaeigandi í Mariehamn, höfuðborg Álandseyja. Hún segir á háannatíma séu um 40 af hundraði gesta frá Svíþjóð, þess sjái stað þegar þeir komi ekki.

Það er erfitt þegar maður veit ekki hvað gerist í næstu vikum. Þetta er erfitt, mjög erfitt.

Jenny Björklund, veitingahúsaeigandi í Mariehamn.

COVID ekki orsök frekar einkenni

Johan Strang kennir norræn málefni við Háskólann í Helsinki. Hann hefur rannsakað og skrifað mikið um málið. Hann segir að kórónuveirufaraldurinn sé ekki orsök öfugþróunarinnar í norrænni samvinnu, frekar eigi að líta á núverandi stöðu sem einkenni (symptom) þess að hlutirnir hafi ekki gengið eins og fólk hafi viljað.

 

Johan Strang sem kennir norræn málefni við Háskólann í Helsinki í viðtali við sænska ríkissjónvarpið SVT
 Mynd: SVT

 

Norðurlönd eru ekki ónæm fyrir alþjóðlegum fyrirbrigðum eins og andstöðu við heimsvæðingu og ný-þjóðernishyggju, sagði Johan Strang.

,,Við erum hluti af heiminum"

Silja Dögg Gunnarsdóttir, forseti Norðurlandaráðs, telur ekki að norrænt samstarf sé í djúpri krísu, en hún bendir á að Norðurlönd séu hluti af heiminum og ekki ónæm fyrir því sem gerist annars staðar. Kannski hefði átt að læra meira af viðbrögðum við flóttamannakrísunni fyrir fimm árum.

Efast um vilja til að búsetja sig í grannlandi

Johann Strang spyr sig um vilja fólks til að búsetja sig í grannlandi, kaupa sumarbústaði og eiga samskipti þegar hindranir eru á landamærum. Hann heldur að fólk hugsi sig um tvisvar þegar ástandið er eins og nú.

Við skulum leyfa Fredrik Karlström, atvinnumálaráðherra Álandseyja, að eiga lokaorðið. Hann hefur áhyggjur því að farsóttin hafi skaðað samstarf norrænu þjóðanna. Á síðustu mánuðum hef ég séð sár sem ekki eru að gróa, lokuð landamæri vekja ótta og tilfinninguna um að það séu ,,við og þeir."

Það á ekki heima á Norðurlöndunum því það er svo miklu meira sem sameinar okkur en sundrar.

Fredrik Karlström, atvinnumálaráðherra Álandseyja.