Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Ástin er í loftinu. Rómantísk flugferð yfir Taíwan

22.11.2020 - 06:18
Erlent · Asía · Ást · Ferðalög · Flugferðir · Matur · Taiwan
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Taíwanska flugfélagið EVA ætlar að bjóða upp nýlundu um jól og áramót undir yfirskriftinni „Fljúgðu með okkur - ástin er í loftinu“.

CNN greinir frá því að á jóladag, gamlársdag og nýársdag verði einhleypu fólki boðið að kaupa flugmiða þar sem flogið verður frá alþjóðaflugvellinum í Taipei og hringsólað yfir landinu í þrjá klukkutíma.

Ætlunin er að fólk kynnist um borð í flugvélinni og að þetta ferðalag geti orðið að rómantískri stund fyrir farþegana. Öll þau sem fara með eru hvött til að spjalla innilega saman á meðan þau snæða mat eldaðaan af Michelin kokki og drekka eðalvín með. Þó er fólk hvatt til að gæta ítrustu sóttvarnarráðstafana.

Flugfélög í Asíu og Eyjaálfu hafa undanfarna mánuði boðið ferðaþyrstu fólki upp á þann valkost að kaupa ferðir án áfangastaðar. Þá er flogið nokkurra klukkutíma útsýnisflug og snúið aftur þangað sem lagt var af stað í upphafi. Slíkar ferðir hafa notið talsverðra vinsælda.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV