And-karllægni, kvenhetjur og róttæk góðvild

Mynd: - / Benedikt

And-karllægni, kvenhetjur og róttæk góðvild

22.11.2020 - 10:00

Höfundar

Í nýrri ljóðabók Kristínar Svövu Tómasdóttur, skálds og sagnfræðings, má greina áhrif og viðveru beggja athafnasviða hennar, segir Björn Þór Vilhjálmsson gagnrýnandi. „Raunar má segja að sagnfræðingurinn stigi hér fram alls ófeiminn, öruggur um samlegðaráhrifin sem skapa má með ljóðskáldinu.“

Björn Þór Vilhjálmsson skrifar:

„Aldrei á ævi sinni hafði hún komið út í þvílíkt myrkur, aldrei komið út í annað eins myrkur, svo svart sem það getur verið, engin aðgreining, himins og jarðar, svarta, svarta, svarta-myrkur, villumyrkur í veglausri óbyggð“. Í myrkrinu sjáum við glitta í ljósmóður. Hún situr á hesti sem ríður um veglausa óbyggð og við borgarbörnin höfum aldrei séð annað eins myrkur. Þið spyrjið ef til vill, kæru hlustendur, hvers vegna við tökum eftir þessari konu þegar myrkrið er svo svart að ómögulegt er að greina milli himins og jarðar? Ástæðan er sú að Kristín Svava Tómasdóttir hefur beint að henni ljósi með nýrri ljóðabók sinni, Hetjusögur.

Þegar stigið er inn í ljóðabókina kemst lesandi einmitt að raun um að nálgun Kristínar Svövu og aðferð við að gefa ljóðunum form má líkja við birtugjafa, ljóstýru sem í myrkrinu sem umlykur lesanda stýrir upp að ákveðnu marki  sjónmáli hans, beinir því að hlutum sem merkingarbærir eru í umhverfinu og þeirri vegferð sem hann hefur þegar hafið með höfundi. Í einum bókarhlutanum er persónuleika „hennar“ lýst, hetju bókarinnar, og í ólíkum köflum er ljósinu beint í ólíkar áttir, við sjáum fólkið sem horfir á hana, við sjáum pennann hennar, við sjáum hennar helstu mannkosti, við sjáum hrikalegan veðurofsann og grimma náttúru, við sjáum hrörlegu húsin sem hún heimsækir, fólkið sem hún annast, gleðina sem hún færir og þakklætið sem hún fær. Við sjáum hendur hennar.

Hetjusögur er fjórða ljóðabók Kristínar Svövu sem áður sendi frá sér Blótgælur árið 2007, Skrælingjasýninguna 2011 og Stormviðvörun árið 2015. Öllum hefur þeim verið vel tekið en ég verð að viðurkenna að mér er sérstaklega minnisstætt hvernig fyrsta bók Kristínar, Blótgælur, varð það sem ég hélt jafnvel að ljóðabækur, eða bara skáldverk, gætu ekki orðið lengur, eins konar menningarskjöldur ungrar kynslóðar sem átti í persónulegu sambandi við bókina, djúpstæðri samræðu og tók inn á sig. Í sjálfu sér þurfti það ekki að koma á óvart, tónninn var einhvern veginn nýr og afskaplega frjáls, þetta var hispurslaus, uppreisnargjörn og últra-femínísk bók. En Kristín er líka menntaður sagnfræðingur og árið 2018 gaf hún út hjá Sögufélaginu fræðiritið Stund klámsins: Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar, framúrskarandi og ögrandi rit, og frumlegt. Þetta skammarlega viðfangsefni hafði að hætti skammarlegra viðfangsefna fallið dálítið milli stafs og hurðar hjá virðulegri og siðsamri akademíunni, en blygðunarsemi af slíku tagi er auðvitað guðsgjöf fyrir þá fræðimenn sem siðspilltari eru. Í nýju ljóðabókinni má greina áhrif og viðveru beggja athafnasviða Kristínar, og raunar má segja að sagnfræðingurinn stigi hér fram alls ófeiminn, öruggur um samlegðaráhrifin sem skapa má með ljóðskáldinu.

Útkoman er afar ólík fyrri ljóðabókum Kristínar, að rigsandi femínismanum undanskildum. Hér vil ég reyndar taka skýrt fram að ég nota rigsandi ekki í skilningi íslenskrar orðabókar, sem er of fýldur fyrir minn smekk, heldur er ég að hugsa um rigsandi göngulag Johns Travolta í upphafsatriði Saturday Night Fever. Neðanmálsgrein lokið. Ólík fyrri ljóðabókunum sagði ég, já og ástæðan er staða textans. Í Hetjusögum er textinn allur tekinn annars staðar frá og ljóðin þannig ort upp úr fjarverandi frumtexta, sem er ritið Íslenskar ljósmæður. Íslenskar ljósmæður komu út í þremur bindum hjá Kvöldvökuútgáfunni á Akureyri á árunum 1962-64. Séra Sveinn Víkingur annaðist útgáfuna og gaf þar að líta æviminningar og æviþætti 100 ljósmæðra sem uppi voru og sinntu skyldum sínum á ofanverðri nítjándu öld og framan af þeirri tuttugustu. Þessar ljósmæður eru viðfangsefni ljóðabókar Kristínar og allar 100 má kannski segja búa með einhverjum hætti í þriðju persónu kvenkyns persónufornafninu í eintölu, „hún“, sem er í senn söguhetja ljóðanna og tilvistargrundvöllur þeirra. Persónufornafnið undirstrikar líka að þessar konur voru nafnlausar í huga þeirra sem mótuðu sögusýnina sem varðveittist og var miðlað.

Í textavinnu sinni fylgdi Kristín strangri vinnuaðferð sem bannaði notkun á texta eða stökum bókstaf sem ekki kom úr ljósmæðraritinu. Hún leyfði sér hins vegar umtalsvert svigrúm til að endurraða textanum og móta hann. Málsgreinar, og hvaða mállegu samfellu sem er, mátti nýta, en jafnframt stök orð og jafnvel mátti vinna með orðin sjálf og brjóta þau upp ef ástæða þótti til.

Stýriþátturinn í Hetjusögum er þó ekki beinlínis textatengslahugtakið, ekki í hefðbundnum skilningi, og jafnvel mætti segja að úrvinnsla sé of veikt hugtak til að fanga textalega nálgun Kristínar þannig að „róttæk fagurfræðileg og femínísk-pólitísk endurvinnsla“ er mín flokkunarfræðilega uppástunga, þótt hún velti kannski ekki af tungunni. En í þessu felst að ljósmæðraritið frá Akureyri verður tvíheima texti, heimalandið hannaði Sveinn Víkingur, íverustaðurinn sem til verður úr landflutningum Kristínar Svövu er bókstaflega nýr heimur, tegundamörkum er snúið á haus og fræði sem jafnframt eru eins konar textalegur tímaferðalangur umbreytast í ljóð sem eru minnisvarði um veröld sem var en markast jafnframt á róttækan hátt af hinum horfna tíma, aldarmismuninum; tungumálið flytur með sér viðhorf fortíðarfeðraveldisins hvurs takmarkanir verða bersýnilegar frammi fyrir dæmandi sjónmáli eigin framtíðar, sem alltaf fyrirlítur samþykkta og réttlætta fordóma eigin fortíðar.

Það sem gerist næst í skáldlegri endurvinnslunni er þó það sem mér finnst vera aðdáunarverðasti flötur ljóðabókarinnar, en þá birtist okkur róttæk góðvild sem vissulega sundrar karllægum frumtextanum en hefst um leið handa við að byggja á rústunum, fjarlægja meinsemdir feðraveldisins og gera textanum þannig kleift að umbreytast í aðferð til að endurheimta rödd, tign og hetjuskap kvennanna.

Ljóðabók Kristínar skiptist í hluta eða kafla, og skiptingarnar eru látlausar en merkingarþrungnar, þematískur rammi ljóðanna tekur stundum gagngerum breytingum. Fyrsti hlutinn, fram að blaðsíðu tólf, felur í sér yfirlýsingu textans um ætlunarverk sitt, líkt og greina má í þessari hendingu af bls. 10: „Fennir í flestra spor, sagnir máðar, af spjöldum minninganna, þessar línur aðeins tilraun, til að bjarga fáeinum, merkiskonum, úr fönninni“.

Í öðrum hluta er strax hafist handa, upplag og eðli „hennar“ er til umræðu  „Hún var fædd til þess, að líkna og hjúkra, það var henni í eðlið borið, hjúkrunar- og lækniseðlið“ (17). Á næstu síðu byrja allar ljóðlínurnar á orðinu „hneigð“, hneigð til líknar; að hjúkra, að hjálpa, að lækna, binda um sárin. Mynd af upphafinni kvenleikafyrirmynd nítjándu aldar birtist hér smám saman sjónum okkar. Tveimur blaðsíðum síðar er það önnur rödd sem við tökum að heyra, þessi endurtekur orðið „löngun“ og nú er viðfangsefni ljóðsins orðið sjálft viðfang þessarar löngunar, að hverju beinist hún? Kjarni þrárinnar er að brjótast út úr kynhlutverkinu í sínu hefðbundnasta formi, löngun til að læra, til aukins víðsýnis, til að öðlast tilbreytingu, til að hleypa heimdraganum, til að verða eitthvað meira en eldabuska. Endurtekningarnar hér mynda andstæðu við íhaldssemina á undan, þannig var hugsað um þessar konur, en hér birtist þeirra hugvera. Þráin sem ljóðin birta snýst þó ekki aðeins um fara út fyrir kynhlutverkið, hún er í raun markmiðamiðaðri, þetta er tjáning á þrá frelsi til að beita vitsmunum sínum óhlekkjuðum af viðhorfum um hvað konur geta, og öðlast verðugan farveg fyrir eigin hæfileika, að verða hreyfanleg innan heimsins og sækja út fyrir heimilið.

Á næstu síðu er þrá-stefið endurtekið, þráin eftir að læra, menntast, litast um í heiminum, kynnast einhverju öðru meiru (20), og aftur á bls. 21, þar „stóð hugur hennar frekar til náms en búsýslu. „Bara að ég hefði orðið drengur.““ (21) Þungi þessara orða er eins og högg. En í bókinni er líka glaðværð og ríkt innra líf, mildi og hlýja. Snemma er lesanda boðið að virða fyrir sér það sem ég myndi kalla dæmi um and-karllægan eiginleika eða and-karllægni en það er þegar í ljós kemur að söguhetjan er „frábitin því, að segja af sér afrekasögur“. En Kristín Svava sér um það fyrir þær og nýja ljóðabókin er óður til þess sem enn mætir viðnámi í ríkjandi kynjapólitík, samfélagshugmyndum og hugmyndum okkar um okkur sjálf, en það er að konan eigi fullt erindi í hlutverk hetjunnar, töffarans, þess sem bjargar hlutunum og getur allt, sameinar góðmennsku, ríkt tilfinningalíf og naglharða skapgerð. Þannig er viðfangsefni ljóðabókarinnar í beinni samræðu við samtímann og með því að skapa hetjufrásögn í fortíðinni dregur Kristín fram skínandi dæmi um það sem enn er reynt að fela og bæla til að feðraveldinu fatist ekki flugið.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Hampar ljósmæðrum í óvenjulegri ljóðabók