Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ætla að tryggja fátækum ríkjum bóluefni

22.11.2020 - 19:15
Sádi-Arabar voru gestgjafar ráðstefnunnar um helgina. - Mynd: EPA-EFE / G20 RIYADH SUMMIT
Leiðtogar tuttugu helstu iðnríkja heims, G20, samþykktu í dag að tryggja jafnan aðgang allra jarðarbúa að bóluefni við COVID-19. Varað hefur verið við að fátækari ríki heims verði útundan þegar dreifing á bóluefni hefst. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, lýsti yfir áhyggjum af því, eftir fundinn, að ekki sé í höfn allsherjar samkomulag um bólusetningu í fátækum ríkjum.

Ráðstefna leiðtoganna fór fram með heldur óhefðbundnum hætti í þetta sinn vegna heimsfaraldursins og ræddu þeir saman í gegnum fjarfundarbúnað, í stað þess að hittast í Riyad í Sádi-Arabíu eins og áætlað hafði verið. Baráttan við faraldurinn var það mál sem bar hæst um helgina og komust leiðtogarnir að samkomulagi um að láta einskis ófreistað til að tryggja að öll ríki heims fengju aðgang að bóluefni þegar þar að kemur. Þetta á að gera í samvinnu við Alþjóða heilbrigðismálastofnunina, Alþjóðabankann, Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og Sameinuðu þjóðirnar. 

„Rússland styður mikilvægustu ákvörðun þessarar ráðstefnu, að vinna að því að tryggja aðgang að áhrifaríkum og öruggum bóluefnum fyrir alla,“ sagði Vladimir Putin, forseti Rússlands á ráðstefnunni. 

Á meðan Bandaríkin og ríki Evrópu skipuleggja að hefja bólusetningu á viðkvæmustu hópunum jafnvel í lok þessa árs, hafa sérfræðingar varað við að þau ríki sem ekki geti reitt fram háar fjárhæðir fyrir bóluefni geti orðið útundan. „Hvert land reynir að finna sín eigin svör við faraldrinum auk þess að leggja sitt af mörkum í hnattrænni vinnu gegn sóttinni, vegna þess að vandamál sem snertir alla jarðarbúa, eins og heimsfaraldurinn gerir án nokkurs vafa, verður ekki leyst nema öll ríki heims taki höndum saman,“ sagði Angela Merkel í sínu ávarpi um COVID-19 á fundinum. 

epaselect epa08793358 German Chancellor Angela Merkel leaves after a press conference after the meeting of the Corona Cabinet in Berlin, Germany, 02 November 2020. Nationwide restrictions, such as the closure of bars and restaurants for one month starting 02 November, have been announced on 28 October due to an increasing number of cases of the pandemic COVID-19 disease caused by the coronavirus SARS-CoV-2.  EPA-EFE/FILIP SINGER
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, eftir fundinn í dag.

Fyrir fundinn var kallað eftir að ríkin myndu verja fjórum til fimm milljörðum bandaríkjadala til viðbótar í baráttunni við faraldurinn, jafnvirði um 550 til 700 milljarða króna. Í lokayfirlýsingu leiðtoganna voru þó engar slíkar tölur nefndar. 

Merkel ræddi við blaðamenn eftir fundinn og lýsti yfir áhyggjum af því að ekki hafi verið gert allsherjar samkomulag um bóluefni til fátækustu ríkja heims. Hún sagði að næst á dagskrá væri að ræða við fulltrúa GAVA, alþjóðlegs bandalags um bólusetningar, um það hvenær slíkar viðræður geti hafist. „Ég hef nokkrar áhyggjur af því að ekkert hafi enn verið gert,“ sagði Merkel og benti á að Bandaríkin, Evrópuríki og önnur auðug ríki hafi þegar gert slíka saminga til að tryggja sér bóluefni um leið og það komi á markað.