
Yfir tólf milljón kórónuveirutilfelli í Bandaríkjunum
Aðeins eru sex dagar síðan ellefu milljóna múrinn var rofinn þar í landi en hvergi í heimi hefur kórónuveirufaraldurinn komið harðar niður. Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum hafa þungar áhyggjur af mikilli fjölgun kórónuveirutilfella undanfarið.
Hin mikla útbreiðsla hefur orðið til þess að víða hefur þurft að grípa til harðra aðgerða í tilraun til að sporna við henni. Bandaríkjamenn eru hvattir til að halda sig heima um Þakkargjörðarhátíðina sem er í næstu viku. Hefðbundið er að heilu fjölskyldurnar leggi þá í ferðalög, jafnvel stranda á milli.
Í New York-borg hefur skólum verið lokað sem hefur áhrif á 1,1 milljón nemenda og útgöngubann að næturlagi er í gildi í Kaliforníuríki. Undanfarna viku hefur íbúum þriðju stærstu borgar Bandaríkjanna, Chicago verið gert að halda sig heima.
Nú eru miklar vonir bundnar við bóluefni frá Pfizer og BioNTech en í gær var tilkynnt að sótt hefur verið um leyfi til notkunar þess eins fljótt og verða má.