Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Yfir tólf milljón kórónuveirutilfelli í Bandaríkjunum

epa08445226 A medical professional administers a COVID-19 test at a free, no-appointment testing site near Barcroft Sports and Fitness Center in Arlington, Virginia, USA, 26 May 2020. Arlington County sponsored the event, which saw hundreds of residents waiting in line for the test.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Kórónuveirutilfelli í Bandaríkjunum fóru yfir tólf milljónir í dag samkvæmt tölum frá Johns Hopkins háskólanum. Alls hafa 255.414 Bandaríkjamenn endað ævina af völdum COVID-19.

Aðeins eru sex dagar síðan ellefu milljóna múrinn var rofinn þar í landi en hvergi í heimi hefur kórónuveirufaraldurinn komið harðar niður. Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum hafa þungar áhyggjur af mikilli fjölgun kórónuveirutilfella undanfarið.

Hin mikla útbreiðsla hefur orðið til þess að víða hefur þurft að grípa til harðra aðgerða í tilraun til að sporna við henni. Bandaríkjamenn eru hvattir til að halda sig heima um Þakkargjörðarhátíðina sem er í næstu viku. Hefðbundið er að heilu fjölskyldurnar leggi þá í ferðalög, jafnvel stranda á milli.

Í New York-borg hefur skólum verið lokað sem hefur áhrif á 1,1 milljón nemenda og útgöngubann að næturlagi er í gildi í Kaliforníuríki. Undanfarna viku hefur íbúum þriðju stærstu borgar Bandaríkjanna, Chicago verið gert að halda sig heima.

Nú eru miklar vonir bundnar við bóluefni frá Pfizer og BioNTech en í gær var tilkynnt að sótt hefur verið um leyfi til notkunar þess eins fljótt og verða má.