Ótrúleg endurkoma Valencia

epa08826355 Valencia Basket's Martin Hermannsson (R) in action against Shelvin Mack (L) of Panathinaikos during the Euroleague game between Valencia Basket and Panathinaikos at Fuente de San Luis pavilion in Valencia, eastern Spain, 17 November 2020.  EPA-EFE/Miguel Angel Polo
 Mynd: EPA-EFE - EFE

Ótrúleg endurkoma Valencia

21.11.2020 - 09:31
Martin Hermannsson og félagar í spænska körfuboltaliðinu Valencia unnu í gær Maccabi Tel Aviv í Evrópudeildinni. Valencia virtist vera búið að tapa leiknum en ótrúlegur lokakafli hjálpaði liðinu til sigurs.

Leikurinn var jafn framan af en leikið var á heimavelli spænska liðsins. Valencia leiddi í hálfleik en dapur þriðji leikhluti heimamanna kom Tel Aviv aftur inn í leikinn.

Þegar í fjórða leikhluta komið, nánar tiltekið þegar rétt rúmar sex mínútur voru eftir leiddi Valencia með sex stigum, 66-60. Þá tók við þriggja stiga veisla Tel Aviv, þeir skoruðu úr hverju langskotinu á fætur öðru og tóku forystuna 79-73 þegar komið var á lokamínútu leiksins. Þá gerðust ótrúlegir hlutir.

Valencia minnkaði muninn með því að fara á vítalínuna tvær sóknir í röð, Dragan Bender, fyrrum NBA leikmaður, kom svo Tel Aviv aftur í þriggja stiga forystu. Þá fór Derrick Williams, sömuleiðis fyrrum NBA leikmaður, í sókn og setti niður mikilvægt þriggja stiga skot til að jafna leikinn fyrir Valencia. Valencia átti svo lokasókn leiksins og skoraði Sam Van Rossom tveggja stiga körfu sem vann leikinn fyrir Valencia, 82-80.

Martin hafði hægt um sig í leiknum í gær en hann skoraði þrjú stig og gaf tvær stoðsendingar.

Valencia er því með sex sigurleiki og þrjá tapleiki að níu leikjum loknum.