Nokkrar háværar sprengingar skóku miðborg Kabúl, höfuðborgar Afganistan í morgun. Að sögn fréttaritara AFP fréttastofunnar var líkast því sem eldflaugum hefði verið skotið hverri á eftir annarri.
Hið minnsta þrjú eru látin og ellefu særð en sprengingarnar urðu á þéttbýlu svæði í miðborginni og við græna svæðið, öryggissvæðis þar sem alþjóðleg fyrirtæki og sendiráð hafa aðsetur. Fyrr í morgun féll einn lögreglumaður og þrír særðust í sprengjuárás í borginni.
Enginn hefur enn lýst ábyrgð á tilræðinu sem var gert skömmu áður en Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna kemur til fundar með fulltrúum Talibana og afgönsku ríkisstjórnarinnar í Katar.
Talibanar hétu því í samkomulagi við Bandaríkin að gera ekki árásir á þéttbýlum svæðum og sverja af sér alla aðild að atlögunni. Ríkisstjórnin hefur þó sakað þá um að hafa gert árásir í höfuðborginni undanfarið.