Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Kynna aðgerðir til stuðnings íþróttafélögum

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Ríkisstjórnin ætlar um miðja næstu viku að kynna styrki til íþróttafélaga og hvernig komið verður til móts við íþróttastarf í landinu á tímum COVID-19. Ríkisstjórnin samþykkti helstu útlínur þessa verkefnis á fundi sínum í gær en endanlegar útfærslur verða ljósar í næstu viku, segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

„Þar erum við einfaldlega að gera það sem í okkar valdi stendur til að ná utan um starf íþróttafélaganna, aðstoða þau í gegnum þá erfiðleika sem COVID-19 faraldurinn veldur og tryggja að þau geti komið sterk inn og sinnt sínu mikilvæga hlutverki fyrir æsku þessa lands,“ segir Ásmundur Einar.

Ríkisstjórnin kynnti í gær viðspyrnustyrki, hækkun atvinnuleysisbóta, lífeyrisgreiðslna og barnabóta. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði þá að aðgerðirnar sem kynntar voru í gær myndu kosta á bilinu 60 til 70 milljarða króna. Þær aðgerðir fela meðal annars í sér að hlutabótaleið verður framlengd.