Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gripið til samkomutakmarkana í Toronto

21.11.2020 - 07:14
Mynd með færslu
 Mynd: CC - Wikimedia
Yfirvöld í Ontariofylki í Kanada hafa fyrirskipað miklar samkomutakmarkanir í Toronto, stærstu borg landsins. Aðgerðirnar hefjast á mánudag og ná einnig til nágrannasveitarfélaga borgarinnar.

Að sögn fylkisstjórans Doug Ford er ætlunin að verja sjúkrahús, hjúkrunarheimili og í raun alla íbúa svæðisins fyrir kórónuveirusmiti. Samkomubanninu er ætlað að vara í tuttugu og átta daga.

Ekki mega fleiri en tíu koma saman utandyra og allir viðburðir innandyra verða bannaðir nema fyrir fólk sem býr undir sama þaki. Sömu fjöldatakmarkanir gilda við jarðarfarir, brúðkaup og aðrar kirkjuathafnir.

Til stendur að halda grunnskólum og barnaheimilum opnum en ætlast til að önnur skólastig notist við fjarkennslu. Verslanir mega vera opnar en með mjög takmörkuðu aðgengi.