Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Desemberuppbót til umsækjenda um alþjóðlega vernd

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að greiða umsækjendum um alþjóðlega vernd fasta framfærslugreiðslu í desember, tíu þúsund krónur til fullorðinna og fimm þúsund til barna. Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður verði um 4,5 milljónir króna. Umsækjendur um alþjóðlega vernd hafa fengið slíkar greiðslur frá því í desember árið 2017, þótt ekki séu í gildi reglur um þær.

„Já, þetta eru viðbótargreiðslur sem þessir aðilar sem eru hér í þjónustu hjá Útlendingastofnun og eru í meðferð Útlendingastofnunar fá í desember, bæði þá fjölskyldur og einstaklingar,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við fréttastofu. 

Desemberuppbótin kemur til viðbótar því sem umsækjendur um alþjóðlega vernd fá greitt samkvæmt reglugerð um útlendinga; 8.000 krónur í fæðispeninga á viku fyrir einstaklinga, 13.000 krónur fyrir hjón eða sambúðarfólk og 5.000 krónur fyrir barn. Greiðslurnar verða þó aldrei hærri en sem nemur 28.000 krónum fyrir hverja fjölskyldu.

Þessu til viðbótar eiga umsækjendur rétt á vikulegum greiðslum eftir fjögurra vikna dvöl hér á landi sem nema 2.700 krónum fyrir fullorðinn og 1.000 krónum fyrir barn.